Erlent

75 ár liðin frá uppgjöf nasista

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Wilhelm Keitel, þýskur marskálkur, undirritar yfirlýsingu um uppgjöf eftir að sovéski herinn tók Berlín.
Wilhelm Keitel, þýskur marskálkur, undirritar yfirlýsingu um uppgjöf eftir að sovéski herinn tók Berlín. Mynd/Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna

Sjötíu og fimm ár eru liðin í dag frá því Nasistar gáfust upp fyrir herjum Bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Kórónuveirufaraldurinn setur svip sinn á fagnaðarlæti dagsins.

Adolf Hitler hafði stytt sér aldur rúmri viku fyrr og sovéski herinn tekið Berlín þegar Karl Dönitz, nýr leiðtogi Þýskalands nasismans, sendi hershöfðingjum sínum fyrirmæli um að gefast upp. Síðar þetta sama ár, 1945, undirrituðu Japanar yfirlýsingu um uppgjöf og stríðinu lauk.

Þeir sem börðust við nasista í stríðinu minnast gleðinnar, en jafnframt þess að stríðinu var ekki lokið.

Sadyr Mambetkodzhoev, var í sovéska hernum. „Þann 9. maí 1945, þegar við lýstum yfir sigri gegn Þýskalandi fasistanna, tókum við af okkur hattana og köstuðum þeim upp í loft af gleði, öskruðum og grétum. Fagnaðarlætin stóðu yfir í þrjá daga.“

Hinn 96 ára gamli John Roberts var aðmíráll í bandaríska sjóhernum. Hann sagðist muna eftir blendnum tilfinningum. Þótt sigur væri unninn í Evrópu var stríðið ekki búið.

Engin meiriháttar hátíðahöld voru í tilefni dagsins í Evrópu í dag, enda ekki skynsamlegt á tímum kórónuveirufaraldursins. Leiðtogar, hermenn og almennir borgarar minntust þó dagsins og hinna föllnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×