Innlent

Teygt á vegagerð vegna kreppu

Vinna er hafin við lokakafla Suðurstrandarvegar, milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Verkið væri unnt að klára á einu ári, að mati verktakans, en er vegna kreppunnar teygt yfir næstu tvö ár.

Nærri helmingur af þessum 58 kílómetra langa vegi er þegar tilbúinn og kominn með bundið slitlag. Við ökum hér eftir sjö kílómetra kafla næst Grindavík, sem kláraðist fyrst og fyrr á þessu ári var lokið við 20 kílómetra milli Þorlákshafnar og Hlíðarvatns.

KNH-verktakar eru að leggja 16 kílómetra kafla milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og þessa dagana eru starfsmenn Suðurverks að setja upp vinnubúðir vegna lokakaflans, sem eru 15 kílómetrar milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Stærsta jarðýta verktakans er byrjuð að ryðja fyrir nýrri veglínu í gegnum Ögmundarhraun.

Allt að fimmtán starfsmenn verða í verkinu og þeim finnst að þarna væri hægt að vinna hraðar. Erlingur Jónsson, verkstjóri hjá Suðurverki, segir verkið skrifað á 2 ár en segir enga spurningu um að unnt væri að vinna það mun hraðar.

„Það er hægt að vinna þetta alveg á rétt rúmu ári," segir Erlingur. Verkið sé látið teygjast vegna kreppunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×