Innlent

Farfuglaheimilin fá Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Stefán Haraldsson, formaður Farfugla, tekur við umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu 2010 úr hendi ráðherra ferðamála, Katrínar Júlíusdóttur.
Stefán Haraldsson, formaður Farfugla, tekur við umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu 2010 úr hendi ráðherra ferðamála, Katrínar Júlíusdóttur.

Farfuglaheimilin í Reykjavík fengu Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu sem veitt voru í 16. sinn í dag. Heimilin fá verðlaunin fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur en það var Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, sem afhenti verðlaunin við athöfn á Grand Hótel Reykjavík. Við sama tækifæri var einnig kynnt nýtt gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar sem hlotið hefur nafnið VAKI.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá 1995 því fyrirtæki sem þykir hafa staðið sig best í umhverfismálum innan ferðaþjónustunnar og hreppa farfuglaheimilin í Reykjavík; í Laugardal og á Vesturgötu 17, verðlaunin að þessu sinni.

Umhverfisvottaðir gististaðir

Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að farfuglaheimilin í Reykjavík séu einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu öllu ásamt Hótel Hellnum. „Það vó einnig þungt við ákvörðun dómnefndarinnar að bæði farfuglaheimilin eru með Svaninn, opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Slík vottun gerir strangar kröfur til þeirra sem hana hljóta og eru farfuglaheimilin í Reykjavík einu gististaðirnir hér á landi sem fengið hafa Svansvottunina," segir ennfremur og bent á að farfuglaheimilin gangi um margt lengra en kröfur eru gerðar um, s.s. í upplýsingagjöf til gesta. „Áhugavert þykir að sjá hversu hlutlæg markmiðssetning og eftirfylgni heimilanna er. Þannig sé tryggt að boðað verklag verði ekki orðin tóm. Einnig er til eftirbreytni að mati dómnefndar hversu vel farfuglaheimilin vekja athygli á menningarviðburðum sem eru í gangi á hverjum tíma og taki jafnframt kröftuglega þátt í félagslífinu í nærumhverfi sínu," segir einnig í tilkynningu.

Gæða- og umhverfiskerfið VAKI

„Við athöfnina í dag kynnti ráðherra ferðmála einnig nafn á nýju gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar en efnt var til samkeppni um nafnið - sem skyldi vera á íslensku og lýsandi fyrir verkefnið en jafnframt þjált í framburði á alþjóðavettvangi. Um 130 tillögur bárust og var það niðurstaða dómnefndar að nýtt gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu skuli heita VAKI enda sé kerfinu ætlað að vaka yfir frammistöðu þeirra sem starfa í greininni og vekja og viðhalda áhuga á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þar sem fleiri en ein tillaga barst með nafninu VAKI var dregið um vinningshafa. Upp kom nafn Gunnars Svavarssonar og hlýtur hann í verðlaun 100 þúsund krónur."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×