Viðskipti innlent

872 milljónir afskrifaðar vegna tíu starfsmanna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valgarð
Heildarútlán til starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík námu rúmum 1,5 milljörðum króna, þar af 1 milljarður í erlendri mynt. Rúmlega 872 milljónir voru afskrifaðar vegna þessara lána. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Þeir tíu starfsmenn sem skulduðu mest hjá Sparisjóðnum í Keflavík skulduðu samtals tæplega 1,1 milljarð króna eða 72% af öllum lánum til starfsmanna. Í apríl 2010 höfðu 820 milljónir króna verið niðurfærðar vegna lána þessara tíu starfsmanna.

Sjö þeirra voru starfsmenn útibús Sparisjóðsins í Keflavík á Hvammstanga, þar sem áður var Sparisjóður Húnaþings og Stranda, og höfðu fengið lánað til kaupa á stofnfé við stofnfjáraukningar síðla árs 2007. Stærstur hluti þessara lána var í erlendri mynt og hækkaði mikið við gengisfall krónunnar árið 2008 en á sama tíma lækkuðu undirliggjandi eignir, stofnfjárbréf í Sparisjóðnum í Keflavík, mjög í verði og urðu á endanum verðlausar.

Stærsta lánamál stjórnarmanns sparisjóðsins sem ekki hefur verið gerð grein fyrir varðar einstakling sem var varamaður í stjórn sparisjóðsins frá desember 2007 og aðalmaður frá janúar 2008 til apríl 2009, sambýliskonu hans og félög í þeirra eigu.

Fyrirgreiðslur til þeirra komu til áður en hann varð stjórnarmaður í sparisjóðnum. Hann átti 10% hlut í einkahlutafélagi á móti sambýliskonu sinni. Félagið var eignarhaldsfélag um nokkur hlutafélög og stofnfjárhluti í Sparisjóðnum í Keflavík og var meðal stórra áhættuskuldbindinga sparisjóðsins frá mars 2009.

Fyrirgreiðslur til stjórnarmannsins og annarra í lánahópnum frá janúar 2008 til apríl 2009 féllu undir viðskipti við venslaða aðila í samræmi við starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra.


Tengdar fréttir

Skýrslan um fall sparisjóðanna í heild sinni

Farið verður yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar, þar á meðal starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna, fjárfestingar, útlán, stofnfjáraugningar, arðgreiðslur og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra.

Heildarkostnaður rúmir 33 milljarðar

Í árslok 2012 var stofnfé í eigu ríkisins 1,9 milljarðar króna en á árinu 2013 voru afskrifaðar 213 milljónir króna af stofnfé ríkissjóðs í sparisjóðunum.

Lánsfé sótt án þess að vita til hvers

Lánsfé sparisjóða var margoft sótt á markað áður en búið var að ákveða til hvaða verkefna ætti að lána. Talið var víst að hægt yrði að lána féð út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×