Sóknarfæri ferðaþjónustunnar er áhersluverkefni á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og nýr samkeppnissjóður Sóknaráætlunar Suðurlands vegna COVID 19. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja verkefni starfandi ferðaþjónustufyrirtækja og fyrirtækja sem hafa aðal tekjur sínar af ferðamönnum og ferðaþjónustu.
„Þetta er í rauninni þrískipt aðgerðaráætlun, þar að segja, við erum að styðja við markaðssókn landshlutans í heild sinni. Í samvinnu við Markaðsstofu Suðurlands þá erum við að fara af stað með kynningaherferð þar sem við erum að leggja áherslu á að Íslendingar heimsæki Suðurland í sumar. Við erum að fara af stað með sjóð, sem er núna í gangi þar sem við ætlum að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki með beinum verkefnastyrkjum þannig að þau fái smá eldsneyti til að vinna í eigin markaðssókn, eða annarri vöruþróun eða fjárhagslegri endurskipulagningu í þeim tilvikum þar, sem það á við um,“ segir Þórður Freyr Sigurðsson, sviðstjóri Þróunarsviðs Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.


„Það er eina vonin, sem fyrirtæki hafa, það er í augnablikinu að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands í sumar og nýti núna alla þá uppbyggingu og innviði sem hafa orðið til á undanförnum misserum, þannig að það ætti að vera mjög spennandi fyrir Íslendinga að njóta þess núna“.