Innlent

Varar við því að hindra aðgang fjölmiðla

Arna Schram, formaður BÍ.
Arna Schram, formaður BÍ.

„Til að tryggja opið og lýðræðislegt samfélag þarf að greiða leið allra fjölmiðla að fréttaviðburðum. Blaðamannafélagið varar við tilraunum til þess að standa í vegi fyrir því. Vinnubrögð af því tagi sem viðhöfð voru í vikunni eru auk þess einungis til þess fallin að skapa tortryggni," segir í bréfi sem stjórn blaðamannafélagsins sendi Andra Óttarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, í dag.

Tilefnið er blaðamannafundur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í Valhöll á mánudag, þegar blaðamönnum og ljósmyndurum var meinaður aðgangur að Vilhjálmi á meðan hann ræddi við fréttamenn ljósvakamiðla um stöðu sína í borginni, en sent var beint út frá fundinum á Vísi, mbl.is og hjá Sjónvarpinu.

Bréfið er hér í heild sinni.

„Til: Framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins

Frá: Stjórn Blaðamannafélags Íslands

Efni: Blaðamannafundur í Valhöll

Blaðamannafélag Íslands harmar framgöngu starfsmanna Sjálfstæðisflokksins vegna blaðamannafundar í Valhöll í vikunni. Hópi fjölmiðlamanna var meinaður aðgangur að fundi í beinni útsendingu með kjörnum fulltrúa borgarinnar um málefni sem brennur á almenningi. Til að tryggja opið og lýðræðislegt samfélag þarf að greiða leið allra fjölmiðla að fréttaviðburðum. Blaðamannafélagið varar við tilraunum til þess að standa í vegi fyrir því. Vinnubrögð af því tagi sem viðhöfð voru í vikunni eru auk þess einungis til þess fallin að skapa tortryggni. BÍ fer fram á að þau endurtaki sig ekki. Í lýðræðislegu samfélagi verða fjölmiðlar að hafa frelsi til að sinna skyldum sínum," segir í bréfinu sem Arna Schram, formaður BÍ ritar undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×