Erlent

Wine ákærður fyrir landráð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stuðningsmenn Bobi Wine vilja að hann verði látinn laus.
Stuðningsmenn Bobi Wine vilja að hann verði látinn laus. Vísir/Getty
Bobi Wine, þingmaður og fyrrverandi poppstjarna, var í gær ákærður fyrir landráð í Úganda. Herinn handtók Wine og þrjátíu aðra í síðustu viku. Honum var sleppt úr haldi í gær. Þá handtók lögregla hann og dró fyrir dóm þar sem ákæran var lögð fram.

Það var afar umdeilt þegar herinn handtók Wine. Þá var hann staddur í Arua, þar sem Yoweri Museveni forseti var að tala máli þingframbjóðanda flokks síns. Yfirvöld halda því fram að Wine og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn hafi hvatt stuðningsmenn sína til að grýta bílalest forsetans.

Stjórnarandstæðingar hafa sagt að Wine hafi verið beittur andlegu ofbeldi í herfangelsi en því hefur herinn sem og Museveni neitað. Bandaríska sendiráðið var á meðal þeirra sem lýstu áhyggjum af meðferð stjórnarandstæðinga en margir eru á þeirri línu að um sé að ræða pólitískar ofsóknir.

Wine nýtur mikilla vinsælda í heimalandinu og því hefur verið spáð að hann bjóði sig fram gegn Museveni í forsetakosningum 2021.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×