Innlent

Jón Bjarki áfrýjar líklega dómnum - sér fram á gjaldþrot

Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, var dæmdur til að greiða 1,4 milljónir króna fyrir meiðyrði í grein í DV í september á síðasta ári.
Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, var dæmdur til að greiða 1,4 milljónir króna fyrir meiðyrði í grein í DV í september á síðasta ári. Mynd/Anton Brink
„Ég á vissulega erfitt með að skilja hvernig blaðamenn eiga að vinna vinnuna sína með þessu áframhaldi - eða bara sagnfræðingar ef því er að skipta," segir Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, sem var í gær dæmdur til að greiða konu 700 þúsund krónur í msikabætur vegna ærumeiðandi ummæla sem birtust í DV í september á síðasta ári.

Blaðið fjallaði þar um nágrannaerjur í Garðabæ. Í blaðinu var meðal annars vísað í dóm sem konan hlaut árið 1989 og í dómi héraðsdóms segir meðal annars: „Hér er um 32 ára og 23 ára gömul mál að ræða sem ósmekklegt er að draga inn í umfjöllun málsins um stefnanda."

Bara absúrd

Jón Bjarki segir ýmislegt vera merkilegt við þennan dóm. „Eins og til dæmis bara það að ég er dæmdur fyrir að hafa vitnað orðrétt í blaðagrein Tímans. Dæmdur fyrir að vitna í orð sem finna má á netinu og hafa aldrei verið dæmd dauð og ómerk. Samt sem áður er tilvitnun mín í þessi sömu orð dæmd dauð og ómerk," segir hann.

„Allt eru þetta staðreyndir - skjalfestar og opinberar staðreyndir sem dómari ákveður upp á sitt einsdæmi að dæma dauðar og ómerkar. Þegar hlutverk dómara er orðið að ákvarða eftir eigin geðþótta hvort heimilt sé að vitna í tilteknar blaðagreinar eða dóma, get ég ekki séð annað en að þeir séu orðnir að eiginlegu ritstjórnarvaldi," segir hann og bendir á að það sé ömurlegt að standa frammi fyrir slíkum veruleika, bæði fyrir íslenska blaðamenn og almenning. „Þetta er í rauninni bara absúrd."

Auk þess að þurfa að borga konunni miskabætur þarf hann einnig að greiða málskostnað hennar, 750 þúsund krónur og þá voru Þrettán ummæli í greinni voru dæmd dauð og ómerk.

Líklegt að hann áfrýji dómnum

„Það er auðvitað klikkun að dæma einstakling til þess að borga eina og hálfa milljón króna úr eigin vasa fyrir það að vinna vinnuna sína. Það var sérstaklaga tekið fram í dómnum að ég hafi tvíeflst í umfjöllun minni og því beri ég að greiða meira - semsagt; Ég vann vinnuna mína vel og á gangrýninn hátt og fyrir það á ég að gjalda háu verði. Þetta bara nær engri átt."

Jón Bjarki segist ekki hafa neina möguleika á að reiða af hendi 1,4 milljónir króna. „Ef þetta stendur, þýðir þetta í rauninni ekkert annað en persónulegt gjaldþrot fyrir mig. Það sér það hver maður að blaðamenn sem starfa í slíku umhverfi, þar sem þeir óttast daglega um fjárhagslegt öryggi sitt og fjölskyldu sinnar, geta á engan hátt sinnt því starfi sem þeim er ætlað að gera."

Hann segist eiga eftir að ráðfæra sig við lögfræðing varðandi framhald málsins „en ég tel líklegt að ég áfrýji þessum dómi," segir hann að lokum.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×