Innlent

Helmingur nefnda uppfyllir kynjakvóta

Utanríkisráðuneytið Nefndir sem skipaðar voru á vegum utanríkisráðuneytisins í fyrra voru allar í samræmi við lög um kynjakvóta.
fréttablaðið/gva
Utanríkisráðuneytið Nefndir sem skipaðar voru á vegum utanríkisráðuneytisins í fyrra voru allar í samræmi við lög um kynjakvóta. fréttablaðið/gva
Konur voru aðeins fjórðungur fulltrúa í nefndum á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Hlutfall kvenna var lakast í nefndum á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Konur skipuðu í heild 40 prósent nefndarsæta á vegum ráðuneytanna og karlar 60 prósent. Hlutfallið var hins vegar ólíkt milli ráðuneyta og var félags- og tryggingamálaráðuneytið eina ráðuneytið þar sem konur voru í meirihluta nefnda í fyrra. Þær voru 51 prósent nefndarmanna á móti 49 prósentum karla, en í heilbrigðisráðuneytinu voru hlutföll kynjanna hnífjöfn. Í öðrum ráðuneytum voru karlar í meirihluta.

Kveðið er á um kynjakvóta í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins í lögum og á hlutur hvors kyns ekki að vera minni en 40 prósent nema málefnalegar ástæður liggi að baki.

Helmingur þeirra nefnda sem voru starfandi á síðasta ári var í samræmi við lög um kynjakvóta, en 66 prósent þeirra nefnda sem voru skipaðar í fyrra uppfylltu skilyrði laganna. Utanríkisráðuneytið var eina ráðuneytið sem skipaði þá í allar sínar nefndir samkvæmt lögunum. Dóms- og mannréttindaráðuneytið skipaði aðeins 38 prósent sinna nefnda í samræmi við þau. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×