Viðskipti erlent

Commerzbank orðaður við tvo banka

Höfuðstöðvar Commerzbank í Frankfurt.
Höfuðstöðvar Commerzbank í Frankfurt. MYND/GEtty

Þýski bankinn Commerzbank, sem FL Group á rúmlega fjögurra prósenta hlut í, hefur verið orðaður við tvo banka, annan í Þýskalandi og hinn í Rússlandi.

Sá fyrrnefndi nefnist Deutche Postbank og er stærsti viðskiptabanki Þýskalands ef tekið er mið af fjölda viðskiptavina. Í hálffimm fréttum Kaupþings er bent á að hlutabréf í Postbank hafi hækkað um nærri þriðjung frá 7. nóvember vegna vangaveltna að um að Deutsche Post muni selja rúman helmingshlut í fyrirtækinu.

Þannig hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir Martin Kohlhaussen, stjórnarformanni Commerzbank, að bankinn muni falast eftir Postbank verði hann boðinn til kaups þótt ekki komi til greina að borga fáranlegt verð fyrir. Sérfræðingar benda enn fremur á að Deutsche Bank gæti rennt hýru auga til Postbank og sömuleiðis erlendir bankar því þarna kunni að leynast síðasta tækifærið fyrir erlenda banka til að komast inn á þýska viðskiptabankamarkaðinn.

Eigendur Commerzbank hafa einnig áhuga á að sækja fram í Rússlandi. Bankinn reyndi um daginn að eignast meirihluta í hinum rússneska Promsvyazbank en það fór út um þúfur þar sem mikið bar í milli kaupenda og seljenda. Bent er á í hálffimmfréttum að Commerzbank eigi rúmlega 15 prósenta hlut nú þegar í rússneska bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×