Viðskipti innlent

Bílar, snjallsímar og hægindastólar fyrir Auroracoin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hluti þess varnings sem boðinn er til sölu fyrir Auroracoin.
Hluti þess varnings sem boðinn er til sölu fyrir Auroracoin. Vísir/Samsett
Rúmlega sextán þúsund manns hafa sótt sér rafmyntina Auroracoin síðan dreifing hennar hófst á miðnætti á mánudag.

Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 500 þúsund einingar verið sóttar á heimasíðu myntarinnar. Það nemur 4,9 prósentum af þeim 10,5 milljónum einingum sem standa Íslendingum ókeypis til boða.

Á Fésbókarsíðunni Auroracoin Kaupa/Selja vörur eru Íslendingar farnir að nota myntina. Bjóða þeir meðal annars notuð húsgögn, raftæki og bíla til sölu í skiptum fyrir Auroracoin. Einn óskar eftir 100 AUR fyrir svartan hægindastól og annar vill sömu upphæð fyrir Samsung Galaxy S4 snjallsíma.

Gengi Auroracoin hefur fallið um 33 prósent undanfarinn sólarhring. Ein eining er nú jafnvirði 768 íslenskra króna. Hver Íslendingur getur sótt sér 31,8 einingar sem svarar til rúmlega 24 þúsund króna á gengi dagsins í dag.

Greinilegt er að áhugi Íslendinga á hinni nýju rafmynt er mikill. Þó hefur verið varað við notkun hans og hefur Seðlabankinn meðal annars sagt mikla áhættu fylgja notkun sýndarfjár.

Minnir Seðlabankinn á að sýndarfé sé ekki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×