Innlent

Verklag Davíðs ekki samboðið Seðlabankanum

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra.
Efnahags- og viðskiptaráðherra segir verklag fyrrverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans ekki samboðið stofnuninni. Þetta kom fram á ársfundi bankans í gær.

Fimmtugasti ársfundur Seðlabanka Íslands var haldinn í gær. Þar gerði formaður bankastjórnar grein fyrir helstu atriðum ársskýrslu bankans og fjallaði m.a. um rúmlega þrettán milljarða króna tap bankans á síðasta ári.

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra hélt einnig hátíðarræðu í tilefni af fimmtíu ára afmæli bankans. Þar sagði hann ný lög um bankann, sem sett voru árið 2001, hafa sett honum skýr markmið um að tryggja stöðugleika fjármálakerfisins hér á landi. Þessu hlutverki hafi þó bankinn burgðist í aðdraganda hrunsins.

„Skylda bankans er að skila frjálsu og gagnrýnu fræðilegu mati á því af hverju mælikvarðar Seðlabankans á fjármálastöðugleika í landinu reyndust rangir.“

Þá gerði Árni Páll alvarlegar athugasemdir við störf fyrrverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans.

„Meintar viðvaranir formanns bankastjórnar sem voru óskráðar og ótengdar mati á fjármálastöðugleika eru nú grunnur saksóknar gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Getur slíkt verklag, jafnvel þótt það hafi verið viðhaft, nokkurn tíma talist réttmætt, faglegt og stofnuninni samboðið?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×