Innlent

Vigdís Finnbogadóttir styður Icesave samninginn

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, greiddi atkvæði utankjörfundar með Icesave samningnum.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, greiddi atkvæði utankjörfundar með Icesave samningnum. Mynd/GVA
„Ég hef ekki lagt í vana minn að lýsa afstöðu minni til umdeildra mála, en nú hefur mikill fjöldi fólks innt mig eftir skoðun minni á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem nú fer í hönd. Mér er afar umhugað um framtíð þjóðarinnar og að vel athuguðu máli vil ég upplýsa að ég hef farið á kjörstað, vegna fjarveru næstu daga, og greitt atkvæði mitt með jáyrði, samningnum í vil," segir Vigdís Finnabogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í tilkynningu til fjölmiðla.

Vigdís segir gömul sannindi að leysa beri deilur með samningum. Það sé aðal friðsamra þjóða, en ekki að heyja langvinn stríð um óljós efni. Það sé þannig sem traust myndist milli þjóða.

 

„Frá mínu sjónarmiði séð leikur enginn vafi á því að orðstír okkar Íslendinga bíður mikinn skaða af áframhaldandi deilum, átökum fyrir dómstólum og flóknum lagaþrætum. Þá er mikið í húfi að við Íslendingar snúum sem fyrst baki við sundrungu og deilum og stöndum heldur saman að því að byggja upp heildstæða og farsæla framtíð fyrir land og lýð. Þess kann ég best að óska Íslendingum," segir Vigdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×