Innlent

Borgin býður út verkefni fyrir yfir 200 milljónir

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.
Borgarráð samþykkti í gær framkvæmdaáætlanir við endurgerð og endurbætur grunnskólalóða í Reykjavík fyrir 100 milljónir og við leikskólalóðir fyrir 35 milljónir samkvæmt tilkynningu frá borgaryfirvöldum.

Einnig var samþykkt áætlun fyrir 70 milljónir til framkvæmda sem bæta umferðaröryggi með áherslu á endurbætur vegna vástaða og gönguleiða skólabarna. Allar þessar framkvæmdir eru í samræmi við fjárhagsáætlun ársins, en með samþykkt borgarráðs í gær er gefið grænt ljós á að bjóða verkin út og verður það gert á næstu dögum.

Verkefnin sem boðin verða út  eru mörg og um alla borg. Einkenni á þessum stóra verkefnapakka er að unnið verður inn í grónu umhverfi og einnig eru verkefnin fjölþætt sem þýðir að þau eru mannaflsfrek og það ætti að gleðja vinnufúsar hendur. Hluti verkefnanna lítur að hönnun og leggur það grunn að framkvæmdatillögum næsta árs. Gera má ráð fyrir að þessi verkefni skapi tímabundin störf sem nema um 180 mannmánuðum á árinu 2011.

Unnið verður við ellefu skólalóðir í borginni og gerir áætlunin ráð fyrir 100 milljónum eins og áður segir. Meðal verkefna er endurgerð hleðsluveggja, bætt lýsing, girðingar og síðan er endurgerð skólalóða eða hluta þeirra. Þar ber hæst endurgerð á lóð Seljaskóla. Eins og gefur að skilja kemur meginþungi vinnu við skólalóðirnar á sumarið þegar skólarnir eru í fríi.

Framkvæmdafé vegna leikskólalóða er 35 milljónir og deilist það á sex staði. Margvíslegar lagfæringar verða gerðar á fjórum stöðum og hönnun vegna endurgerðar á tveimur stöðum.

Til úrbóta á 22 skilgreindum vástöðum í umferðinni verður varið nær 50 milljónum króna og til endurbóta á 18 stöðum tengdum gönguleiðum skólabarna fara nær 20 milljónir. Samtals 70 milljónir. Framkvæmdir á þessum stöðum dreifist yfir sumarið og fram á haust, en gert er ráð fyrir verklokum um miðjan október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×