Innlent

Eva vonar að Icesave verði fellt

Eva Joly
Eva Joly
Eva Joly segist vonast til þess að Icesave-frumvarpið verði fellt á laugardaginn samkvæmt grein sem hún skrifaði og birti í Morgunblaðinu í morgun. Þar skrifar Eva:

„Augu heimsins hvíla nú á íslensku þjóðinni, sem hefur hingað til hafnað öllum Icesave-kröfum; kröfum um að ganga í skilyrðislausar ábyrgðir fyrir fjármálageirann. Það er mín von að þessi jákvæði baráttuandi muni hafa yfirhöndina í þjóðaratkvæðagreiðslunni“.

Eva segir að bæði séu kröfurnar gríðarlega háar í ljósi smæðar þjóðarinnar en að auki hafi engin lýðræðisleg umræða farið fram um það hversvegna þjóðríki eigi að ábyrgjast ábyrgðalausa útlánastefnur fyrirtækja.

Svo skrifar Eva:

„Það er í þessu samhengi sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave er bæði táknræn og mikilvæg fyrir Evrópu og heiminn allan. Það er augljóst að hinu lýðræðislega ferli er stórlega ábótavant. Svo til engin opinber umræða hefur farið fram um hamfarirnar í fjármálaheiminum.

Þess sér hvergi stað að sú stefna að skattgreiðendur skuli skilyrðislaust bjarga fjármálastofnunum og skuldabréfaeigendum, hafi verið rædd tilhlýðilega á vettvangi Evrópusambandsins. Ég hef miklar efasemdir um að evrópskum skattgreiðendum finnist þetta réttlátt og sanngjarnt. Það er ekki ljóst hvort þessi stefna byggist á forsendum hugmyndafræði eða af illri nauðsyn. Og ef forsendurnar eru þessi illa nauðsyn, vaknar spurningin: Er þessi stefna sjálfbær? Gengur hún upp?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×