Erlent

Kínverjar framleiða fyrstu klámmyndina í þrívídd

Kínverjar hafa riðið á vaðið og framleitt fyrstu þrívíddarklámmyndina í fullri lengd. Byrjað er að sýna myndina í Hong Kong og er fullt hús á hverri sýningu.

Myndin sem er um ræðir ber heitið Sex and Zen: Extreme Ecstasy. Samkvæmt sýnishorni sem sjá má á netinu er myndin blanda af klámi og kung fu krydduð með margvíslegum tæknibrellum sem algengar hafa verið í kínverskum ævintýrakvikmyndum á undanförnum árum. Sögusvið myndarinnar er hið klassíska Kína á Ming tímabilinu.

Í umfjöllun um myndina í breska blaðinu The Guardian er haft eftir framleiðenda myndarinnar að hún sé full af mjög djörfum senum, svo djörfum að stranglega bannað er að sýna hana á meginlandi Kína. Því flykkjast Kínverjar nú til Hong Kong til að sjá myndina.

Framleiðandinn segir einnig að þrívíddartæknin geri það að verkum fyrir áhorfendann að það sé eins og að sitja á rúmstokknum þegar djörfustu atriðin eru sýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×