Innlent

Búið að aflýsa hættuástandi í Hörpu - gaslekinn reyndist hreinsiefni

Frá vettvangi.
Frá vettvangi.
„Það er búið að aflýsa hættuástandinu," segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar, en gríðarlegur viðbúnaður varð vegna þess að nemar námu gasleka í veitingastaðnum Munnhörpunni.

„Við erum með svo næm kerfi að þau pikka allt upp," segir Steinunn Birna en hundruð manna voru í húsinu þegar allt tiltækt lið slökkviliðsins kom á vettvang og lögregla lokaði svæðinu í kring vegna ótta um gasleka. Það var þó ekki svo slæmt að sögn Steinunnar.

„Það var verið að þrífa ofna og efnið barst í kerfið sem varð til þess að þetta gerðist," segir Steinunn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni fundu þó tveir einstaklingar fyrir óþægindum vegna efnanna.

„Það er alveg rafmögnuð stemmning hérna. Þeir sem vinna hér þurfa sko ekki að horfa á bandarískar hasarmyndir," segir Steinunn um viðbúnaðinn í Hörpu en opnunarhátíð hússins hefst á morgun.

Aðspurð segir hún atvikið í dag ekki hafa áhrif á opnunina á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×