Innlent

Vaknaði úr dái eftir 5 vikur

Ellý Ármannsdóttir skrifar
„Það sem mér finnst mikilvægast þegar ég er búin að ganga í gegnum þetta ferli er að hafa góðan stuðning á bak við mig og mestu máli skiptir að hafa alltaf vonina, hugsa jákvætt og halda utan um hvort annað og styðja hvort annað því að svona áfall er gríðarlega erfitt fyrir alla í kringum manneskjuna sem veikist," segir Tinna Rut Einarsdóttir, 21 árs, sem komst til meðvitundar eftir 5 vikna svefn í öndunarvél aðeins 16 ára gömul. Tinna deilir hér erfiðri reynslu sinni en saga hennar staðfestir að kraftaverkin gerast enn.

Líkur á heilaskaða miklar

„Ég fékk mjög skæða heilahimnubólgu árið 2006 sem var svo alvarlegt að það var mikill vökvi sem þrýsti á heilann og þurfti að létta honum af og var ég þess vegna svæfð til að reyna að ná þrýstingnum niður því hann var lífshættulega hár."

„Það var Garðar Guðmundsson heilaskurðlæknir sem skar mig upp og setti svokallað dren við heilann til að tappa vökvanum burt eftir einhven tíma sofandi í öndunarvél en þrýstingurinn virtist ekki lækka nógu mikið þrátt fyrir að læknar og hjúkrunarfólk gerðu allt sem það gat og margir voru orðnir virkilega svartsýnir þar sem svo mikill þrýstingur getur skaðað heilann mikið og á tímapunkti sögðu læknarnir foreldrum mínum að það væri möguleiki á að ég myndi aldrei vakna vegna þess hve langur tími var liðinn og að ef ég vaknaði þá væru líkur á miklum heilaskaða og að hugsanlega myndi ég aldrei ganga aftur og gæti orðið mjög andlega skert ef ég skyldi vakna," útskýrir Tinna.

Fjölskyldan gaf aldrei upp vonina

„En fjölskylda mín gaf þó aldrei upp vonina þó útlitið væri svart og kom það svo til að eftir fimm vikna legu á gjörgæsludeild sofandi í öndunarvél og með hjálp Garðars heilaskurðlæknis þá komst ég til meðvitundar," bætir hún við.

„Eftir leguna á gjörgæslu tók við meiri spítalalega á barnaspítala hringsins en þangað fór ég 6.júní 2006 og var í þrjá mánuði í umönnun frábærs fólks sem vildi hjálpa mér að ná bata. Þannig var nú samt mál með vexti að með heilahimnubólgunni fæ ég mænuskaða og þegar ég vakna var ég lömuð frá hálsi en ég tel að viðhorf mitt frá fyrsta deginum sem ég uppgötvaði lömunina hafi skipt sköpum og það var og er bara eitt í stöðunni og það var að fara þetta á jákvæðninni og vona það besta."

Föst í hjólastól í tvö ár

„Ég var föst við hjólastól í tvö ár en eftir gríðarlega góða þjálfun sem ég fékk á Reykjalundi í sjö vikna dvöl sumarið 2008 var ég laus við hjólastólinn og geng nú með eina hækju mér til stuðnings, sem er mikil breyting og hefur gefið mér mikið frelsi," segir Tinna.

„Ég er reyndar að hluta til enn lömuð vinstra megin á líkamanum, þá aðallega á vinstri hönd og auk þess missti ég sjónsviðið til vinstri svo ég get ekki keyrt bíl en í dag er ég í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og stefni á að ljúka stúdentsprófi þaðan núna um jólin 2011. Framtíðin er óráðin og ég verð að fara að gera upp við mig hvað mig langar að gera eftir að skólinn er búinn en helst myndi ég vilja mennta mig meira til þess að geta unnið eitthvað með fólki og jafnvel nýta mina reynslu í að hjálpa og uppörva aðra sem gætu lent í svipaðri stöðu, þá séstaklega þá yngri sem gætu haldið að eitthvað þessu líkt sé endir lífsins eins og þeir þekkja það en það er lykilatriði að laga sig að breyttum aðstæðum og reyna að líta jákvæðum augum á framtíðina. Það geri ég allavega. Ég er svo heppin að hafa mikið af góðu fólki í kringum mig sem er tilbúið að hjálpa mér að gera það sem ég vil.

Ef þú rifjar upp þennan erfiða tíma. Manstu eitthvað? „Ég man nú ekkert meðan ég var í dáinu en ég fékk heilahimnubólguna upp úr flensu og man í raun ekki mikið nema bara fyrir veikindin og svo rétt eftir þau en að sjálfsögðu hefur líf mitt breyst mikið og ég get ekki gert alveg sömu hluti og áður eða allavega ekki eins fyrirhafnarlaust," segir Tinna og bætir við:

„Það er lika mikilvægt fyrir aðstandendur að gleyma ekki að hugsa um sjálfa sig því þeir verða að halda áfram sínu lífi líka þó svo að kannski vilji þeir einbeita sér alveg að veiku manneskjunni. Í mínu tilfelli var ég líka mjög heppin að vinir mínir voru mér mjög góðir og ég hélt í rauninni bara áfram mínu lífi nema bara á aðeins öðruvísi hátt."

Hér má sjá Facebooksíðuna sem Helena Hauksdóttir stofnaði fyrir bestu vinkonu sína, Hrönn Benediktsdóttur, sem liggur meðvitundarlaus á Landspítalanum í Fossvogi, í von um að þjóðin biðji fyrir Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×