Innlent

Óttast að hér sé "hestaripper" á ferð

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni Getty
Hestamaðurinn sem uppgötvaði skurði á kynfærum hryssu um helgina hefur ritað greinargerð um fyrirbærið „hestaripper" sem hann ætlar að koma til lögreglunnar á Egilsstöðum, lögreglumönnum til upplýsingar. Þá hefur hann einnig mælst til þess að greinargerðin verði hengd upp í hesthúsum þannig að hestaeigendur séu meðvitaðir um hættuna. Hann óttast að hér hafi verið á ferðinni ófyrirleitinn dýraníðingur.

Höfundur greinargerðarinnar heitir Ólafur Guðgeirsson og er heila- og taugaskurðlæknir.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag var hann í reiðtúr með eiginkonu sinni þegar hann varð var við blóðbletti á læri hryssunnar og sá við nánari skoðun að blæðingin var úr skeið hennar.

Heitið hestaripper er dregið af nafni breska fjöldamorðingjans Jack the Ripper, betur þekktur hér á Íslandi sem Kobbi kviðrista.

Eftir að Ólafur fann skurðina á hryssunni sökkti hann sér í þýskar fræðibækur, en sjálfur var hann við nám í Þýskalandi. Þar í landi gengu menn sem misþyrmdu hrossum á þennan hátt undir heitinu „pferderipper."

„Þetta glæpsamlega tortímingaræði flokkast undir (zoosadisma) dýraníðingsskap. Í hópnum eru kvennaraðmorðingjar, en við yfirheyrslur margra þeirra í Þýskalandi er oft fyrri saga um dýraníðingsskap, raðáverka eða raðmorð. Einnig játuðu flestir að vera kvenhatarar," segir í greinargerð Ólafs, en þar kemur fram að hann sækir fróðleik sinn til þýskra sérfræðinga.

Ólafur segir að þegar í ljós kom að um áverka af mannavöldum var að ræða á hryssunni, eftir því sem komist er næst, hafi hann munað eftir fjölmiðlaumfjöllun um hestarippera frá námsárunum í Þýskalandi. „Þá var ákveðið að í stað þess að hlífa almenningi við þessum staðreyndum þá var fjallað um þetta opinskátt. Þannig væru meiri líkur á að níðingarnir kæmust í viðeigandi meðferð eða á bak við lás og slá," segir hann.

Ólafur segir það ekki hafa verið tekið út með sældinni að lesa sér til um jafn viðurstyggilega hluti og dýraníð. „Það var hörmulegt að þurfa að vinna þetta. Ég gerði það með miklum stunum. Mér leið mjög illa meðan ég var að vinna úr þessu," segir hann.


Tengdar fréttir

Skurðir á kynfærum hryssu - lögreglan kölluð til

Lögð hefur verið fram kæra til lögreglunnar á Egilsstöðum um meint dýraníð eftir að áverkar, sem taldir eru af völdum eggvopns, fundust á innanverðum kynfærum hryssu. Þetta staðfestir Hjörtur Magnason, héraðsdýralæknir á Egilsstöðum. Um er að ræða tvo skurði í skeið hryssunnar, eins og sjö sentimetra langa. Ekki hafa komið fram vísbendingar um hver var þarna að verki. Héraðsdýralæknir var kallaður til á sunnudag eftir að hestamaður varð var við grunsamlega áverka og óeðlilega blæðingu úr skeið hryssu. "Manni bregður nú við að sjá svona," segir Hjörtur. Hestamaðurinn var í útreiðartúr á svæðinu ásamt eiginkonu sinni þegar hann tók eftir blóðblettum aftan á lærum umræddrar hryssu. Eftir komu í hesthús skoðaði hann blettina, lyfti taglinu og uppgötvaði þá blæðingu úr skeiðinni. Við nánari athugun kom í ljós skurður í neðra skeiðaropi og einhvers konar búlga innar í skeið. Hafði viðkomandi þá samband við héraðsdýralækni. "Ég á mjög erfitt með að sjá hvernig þessir áverkar gætu verið af völdum hryssunnar sjálfrar eða annarra dýra," segir Hjörtur og telur því að ekki sé um annað en mannaverk að ræða. Lögregla var kölluð til og tók myndir af áverkum. Hjörtur telur að á þeim tíma hafi áverkarnir verið á bilinu 8 til 24 klukkustunda gamlir. "Ég legg til í skýrslu að þetta verði skráð sem meint dýraníð," segir Hjörtur. Enginn liggur undir grun um verknaðinn. Hjörtur hefur aldrei séð viðlíka áverka á hestum en segist hafa heyrt um það þegar hann var við nám í Svíþjóð að dæmi væri um að fólk misþyrmdi dýrum illilega, og þá jafnvel með eggvopni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×