Erlent

Þrjú dauðs­föll barna í New York tengd við barna­sjúk­dóminn

Sylvía Hall skrifar
Andrew Cuomo óttast að sjúkdómurinn hafi verið í gangi í einhverjar vikur.
Andrew Cuomo óttast að sjúkdómurinn hafi verið í gangi í einhverjar vikur. Vísir/getty

Dauðsföll þriggja barna eru nú talin vera af völdum nýs og sjaldgæfs barnasjúkdóms sem er sagður geta tengst kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Öll börnin höfðu greinst með Covid-19 eða önnur afbrigði af kórónuveirunni að því er fram kemur á vef Reuters.

Á meðal barnanna sem hafa látist er fimm ára drengur sem lést nýverið. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, greindi frá því á upplýsingafundi í gær og sagði það vera til skoðunar hvort rækja mætti önnur dauðsföll barna í ríkinu til sjúkdómsins.

Heilbrigðisyfirvöld skoða nú 73 sambærileg tilfelli og hefur það grafið undan þeirri kenningu að Covid-19 leggist ekki illa á börn. Að sögn Cuomo gæti nýi barnasjúkdómurinn hafa verið á kreiki í einhverjar vikur án þess að læknar hafi komið auga á tengingu við kórónuveiruna.

Einkenni sjúkdómsins eru sögð líkjast Kawasaki-sjúkdómnum sem er bólgusjúkdómur sem leggst fyrst og fremst á börn. Þannig myndar sjúkdómurinn óhóflegt bólguviðbragð í líkamanum og börn geta orðið afar lasin.

Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir, sagði í samtali við Vísi á dögunum að fylgst væri náið með gangi mála en sjúkdómurinn hefur meðal annars greinst í börnum á Bretlandseyjum, Spáni, Ítalíu og í Hollandi.

„Þetta er eitthvað sem stærri barnaspítalar úti í heimi hafa verið að sjá og það er í raun algjör óvissa um hvort þetta tengist Covid yfir höfuð. En þetta eru nokkur tilfelli sem hafa komið upp,“ sagði Valtýr í samtali við Vísi.

„Þannig að það er svo sem alveg mögulegt að þetta tengist því að hafa fengið Covid-19, jafnað sig af því og svo kemur þetta í kjölfarið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×