Innlent

Skattahækkanir skila sér ekki sem skyldi í ríkissjóð

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Skattahækkanir á undanförnum árum hafa ekki skilað sér sem skyldi í ríkissjóð. Hagfræðiprófessor segir ástandið mikið áhyggjuefni og telur vaxandi líkur á ríkisgjaldþroti.

Deloitte hélt í dag morgunverðarfund um skattabreytingar á árunum 2005 til 2011. Þar kom meðal annars fram aukið flækjustig skattkerfisins.

Margir skattar hafa hækkað á þessu tímabili, tekjuskattur er nú þrepaskiptur upp og sömuleiðis staðgreiðsla einstaklinga.

Þar að auki hefur fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur tvöfaldast.

En það eru ekki bara beinir skattar sem hækka. Nýir skattar og gjöld hafa einnig bæst við.

Umhverfis og auðlindaskattar til dæmis af bensíni og raforku. Lögð hafa verið gjöld á áfengi og tóbak í fríhöfninni og tekinn upp bankaskattur. Þá er var tekinn upp nýr auðlegðarskattur á hreina eign einstaklinga umfram 75 milljónir.

Hins vegar hafa skatttekjur ekki hækkað í samræmi við skattahækkanir. En skatttekjur hins opinbera stóðu nánast í stað á árunum 2008 og 2009 samkvæmt tölum frá Hagstofunni.

„Það eru miklu meiri hvatar til að koma sér undan skattgreiðslu eftir því sem skattarnir eru hærri, að sjálfstöðu, þannig að það sem endar hjá Steingrími og ríkisstjórninni er kannski bara það sama," segir Vala Valtýsdóttir sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte.

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor hélt á fundinum erindi um skattheimtu og hagvöxt.

Hann segir fjárfestingu hér á landi í algjöru lágmarki og vaxandi halla á ríkissjóði vera mikið áhyggjuefni.

„Með þessu áframhaldi þá eru vaxandi líkur á því að það verði ríkisgjaldþrot á Íslandi. Við komumst ekki út úr þessu með meiri skattheimtu, við komumst bara út úr þessu með hagvexti og það verður ekki hagvöxtur nema það verði dregið úr skattheimtunni," segir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×