Innlent

Handriðin í Hörpu slysagildra

Símon Birgisson skrifar
Handriðin á svölunum í Eldborgarsal Hörpunnar eru slysagildra og hafa tónleikagestir kvartað til tryggingafélaga. Tónlistarstjóri hússins ráðleggur lofthræddu fólki að kaupa sér ekki miða á svölunum.

Það er á svölunum í Eldborgarsalnum í hörpunni þar sem margir óttast að fara fram af. Enda nær handriðið meðalmanni aðeins upp að mitti. Og fallið er hátt.

Tryggingafélagið Vís skoðar nú málið en handriðin gætu verið hættuleg slysagildra. Friðrik Bragason, framkvæmdastjóri Vátryggingasviðs hjá Vís, staðfesti að fyrirtækinu hefðu borist ábendingar um handriðin frá tónleikagestum.

„Við erum með húsið í tryggingu og fylgjumst mjög náið með öllu því sem er í gangi," sagði Friðrik. Hann sagði stutt frá opnunartónleikunum og því hafi ekki enn verið gripið til aðgerða.

„En þetta er þannig mál að það er sjálfsagt að skoða það vel."

Steinunn Birna Ragnarsdóttir tónlistarstjóri Hörpunnar segir málið áhyggjuefni.

„Auðvitað er áhyggjuefni ef eitthvað veldur fólki óþarfa áhyggjum. Í flestum leikhúsum og tónlistarhúsum eru handriðin á undanþágu til að skyggja ekki á sjónlínu."

Steinunn segir vissulega ansi bratt á svölunum.

„Þeir sem eru viðkvæmir fyrir hæð, ég myndi ráðleggja þeim að kaupa miða á öðrum stöðum."

Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur gagnrýnt það að húsið sé opnað óklárað. Steinunn segir starfsemina hafa orðið að ganga fyrir.

„Við verðum að vera hagsýn og verðum að láta starfsemina sem fyrst. Breyttir tímar? Ég held það. Ég held að þetta sé birtingarmynd þess að við séum að horfa á innihaldið umfram umgjörðina," segir Steinunn Birna.

„En flestir gestir í Hörpunni í dag eru í gulum vestum og með hjálma. Þeir koma náttúrlega eins og þeir vilja vera en ég get lofað því að það þarf enginn að koma með hjálm," segir Steinunn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×