Innlent

Nýtt met í nýtingu hótelherbergja

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Nýting hótelherbergja náði nýju meti á síðasta ári þegar hún var 71,3 prósent yfir landið í heild en nýtingin hefur aukist stöðugt frá árinu 2011. Nýtingin hefur haldist í hendur við mikla fjölgun erlendra ferðamanna og ljóst að framboð hótelherbergja hefur ekki náð að halda í við fjölgunina, segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Herbergjanýting var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 84,5 prósent, og næst best á Suðurnesjum, eða 72,7 prósent. Á Suðurlandi var hún 58,5 prósent og á Vesturlandi, Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi á bilinu 44, prósent til 48,6 prósent. Hún var lægst á Austurlandi líkt og síðustu ár.

Þá fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum á síðasta ári um 33,9 prósent milli ára yfir landið í heild. Minnst fjölgaði gistinóttum á Suðurlandi, eða um 28,9 prósent, og næstminnst á höfuðborgarsvæðinu, eða um 31 prósent. Fjölgunin var mest á Norðurlandi, að því er segir í Hagsjá Landsbankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×