Viðskipti innlent

Borgarráð hafnar sölu á Hellisheiðarvirkjun til bandarískra fjárfesta

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hellisheiðarvirkjun er ellefu ára gömul jarðvarmavirkjun.
Hellisheiðarvirkjun er ellefu ára gömul jarðvarmavirkjun.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgarráð í dag hafa hafnað að ganga til viðræðna við bandaríska fjárfesta um sölu á Hellisheiðarvirkjun.

„Thanks, but no thanks," segir Dagur í Facebook-færslu sem hann birti fyrr í dag. 

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, greindi í gær frá tilboði einkahlutafélagsins MJDB í eignarhluti Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar í virkjuninni. Sveitarfélögin þrjú fengu fyrr í mánuðinum tilboð í eignarhluti sína en Orkuveita Reykjavíkur (OR) hafnaði um miðjan desember tilboði sama félags í virkjunina í annað sinn.

MJDB er að stærstum hluta í eigu Magnúsar B. Jóhannessonar, framkvæmdastjóra hjá America Renewables í Kaliforníu, en í samtali við Markaðinn vildi hann ekki tjá sig um tilboðin eða það hvort aðrir innlendir eða erlendir fjárfestar koma að þeim. Samkvæmt stöðuuppfærslu borgarstjóra er ljóst að bandarískir fjárfestar komu að tilboðinu með honum. 

Hellisheiðarvirkjun er í eigu Orku náttúrunnar (ON), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Reykjavíkurborg á 93,54 prósenta hlut í OR, Akraneskaupstaður 5,53 prósent og Borgarbyggð 0,93 prósent. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur hefur ekki farið fram verðmat á Hellisheiðarvirkjun. Bókfært virði virkjana ON í árslok 2015 var um 950 milljónir Bandaríkjadala eða 107 milljarðar króna miðað við núverandi gengi. Bróðurpart þeirrar upphæðar má rekja til Hellisheiðarvirkjunar þar sem Nesjavallavirkjun hefur verið afskrifuð að verulegu leyti og Andakílsárvirkjun er komin til ára sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×