Fótbolti

KSÍ verður með stuðningsmannasvæði fyrir næstu leiki í Dalnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður vonandi stemning fyrir leik út á bílastæði.
Það verður vonandi stemning fyrir leik út á bílastæði. vísir/getty
KSÍ tilkynnti í dag að það verður boðið upp á stuðningsmannasvæði, Fan Zone, fyrir æfingaleiki karlalandsliðsins sem og fyrir leik kvennalandsliðsins gegn Slóveníu.

Karlalandsliðið spilar við Noreg á laugardag og Gana þann 7. júní. Kvennalandsliðið tekur svo á móti Slóveníu þann 11. júní.

Upphitun hefst tveimur klukkustundum fyrir leikina.  Klukkan 18.00 fyrir leik strákanna gegn Noregi og Gana og klukkan 16.00 fyrir leik kvennaliðsins gegn Slóveníu.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.  Á svæðinu verður boðið upp á andlitsmálningu, hoppukastala auk þess sem Tólfan mætir á svæðið klukkutíma fyrir leik til að kynda undir stemningunni.  Veitingasala verður á svæðinu, sala á Áfram Ísland varningi sem og salernisaðstaða.

Skemmtunin er sett upp með þarfir yngri kynslóðarinnar í huga og eru fjölskyldur því sérstaklega hvattar til að mæta tímanlega til að njóta hennar sem best.

Viðburðirnir verða staðsettir á bílastæðunum fyrir framan Laugardalsvöll og vegna þeirra verður hluti bílastæðanna lokaður.

Fólk er beðið um að hafa það í huga þegar komið verður á völlinn að færri bílastæði verða í boði í Laugardalnum en venja er á landsleikjum og því um að gera að nýta almenningssamgöngur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×