Innkoma Nígeríumanna á HM fyrir 24 árum síðan var eftirminnileg í meira lagi. Afrek Kamerún frá því á HM á Ítalíu fjórum árum áður sýndi og sannaði að menn þurftu að fara taka Afríkuþjóðirnar meira alvarlega á HM en frammistaða nígeríska landsliðsins fékk suma til að spá því að fyrr en varir myndum við sjá afrískt landslið fara alla leið á HM.
Nígeríumenn komu inn í keppnina í Bandaríkjunum af miklum krafti, náðu frábærum árangri í riðlakeppninni og heilluðu heiminn með krafti sínum og flottum fótbolta. Margir leikmenn liðsins áttu í framhaldinu eftir að komast að hjá stórum klúbbum í Evrópu.
Það hafði tekið dágóðan tíma fyrir nígerískt landslið að stíga þetta skref og oftar en ekki hafði liðið klikkað á lokasprettinum.
Nígeríumenn komust loksins á HM þegar keppnin fór fram í Bandaríkjunum 1994 en fjórum árum fyrr höfðu þeirr misst naumlega af sæti í lokakeppninni. Nú enduðu Nígeríumenn á því að skilja Fílbeinsströndina og Alsír eftir í sínum riðli. Hinar Afríkuþjóðirnar í heimsmeistarakeppninni 1994 voru Kamerún og Marokkó.
Þjálfari nígeríska landsliðsins þetta sumar var Hollendingurinn Clemens Westerhof. Þetta var hans lið enda búinn að vera með liðið í fimm ár þegar kom að keppninni. Eftir að liðinu tókst ekki að ná jafntefli í lokaleik sínum í undankeppni HM 1990, jafntefli sem hefði tryggt liðinu HM-sæti, þá tók Westerhof þá ákvörðun að hann þyrfti að byggja upp nýtt lið sem og hann gerði.
Riðillinn á HM 1994 var allt annað en auðveldur en hann innihélt evrópsku liðin Búlgaríu og Grikkland og svo Diego Maradona og félaga í Argentínu.
Nígeríumenn stimpluðu sig aftur á móti inn og unnu 3-0 sigur á Búlgaríu í fyrsta leik sem fram fór í Dallas. Sá sigur er án vafa í hópi með þeim flottustu hjá nýliðum á HM og vakti mikla athygli. Í raun má segja að margir leikmenn Nígeríu hafi þarna öðlast heimsfrægð á einni kvöldstund.
Hin mörkin skoruðu þeir Daniel Amokachi og Emmanuel Amunike sem voru 23 ára og 21 árs gamlir. Einn af stærstu stjörnum liðsins var hinn tvítugi Jay-Jay Okocha og hinn 19 ára gamli Sunday Oliseh var líka í stóru hlutverki á miðju liðsins. Allt ungir framtíðarmenn.
Sóknarmenn nígeríska liðsins voru ekkert að hika þegar þeir fengu boltann heldur keyrðu á varnarmenn mótherjanna sem áttu mjög erfitt með að ráða við styrk þeirra og hraða. Búlgarirnir vissu oft ekki hvað á sig stóð veðrið í þessum leik sem fram fór 21. júní 1994.
„Við komum til Bandaríkjanna til að sýna að við getum leikið knattspyrnu í Afríku en við höfum verið að vinna með þetta lið í fimm ár.
Ef til vill töpum við næsta leik wn það skiptir ekki máli. Við komum hingað til að skemmta fólki," sagði Clemens Westerhof eftir sigurinn á Búlgaríu.
Nígería tapaði næsta leik naumlega á móti Argentínu en tryggði sér síðan sigur í riðlinum með 2-0 sigri á Grikklandi í lokaleiknum. Amokachi var þar aftur á skotskónum.

Nígeríumenn unnu riðilinn en höfðu samt ekki heppnina með sér hvað varðar mótherja í sextán liða úrslitunum. Þeirra biðu Ítalir sem höfðu skriðið áfram sem eitt af liðunum með bestan árangur í þriðja sæti. Nígeríumenn mættu í leikinn sem eitt heitasta lið keppninnar á sama tíman að flestir voru farnir að efast um Ítali eftir aðeins 1 sigur og 2 mörk í þremur leikjum sínum í riðlakeppninni.
Nígeríumenn komust í 1-0 á móti Ítalíu með marki Emmanuel Amunike á 25. mínútu og þannig var staðan allt þar til á 88. mínútu þegar Roberto Baggio bjargaði sínum mönnum og tryggði Ítalíu framlengingu. Baggio skoraði síðan sitt annað mark í framlengingunni og tryggði Ítölum sæti í átta liða úrslitunum.
Nígeríumenn voru því á heimleið eftir magnað mót en Ítalir fóru alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir töpuðu fyrir Brasilíu í vítakeppni. Roberto Baggio kláraði ekki aðeins Nígeríu í 16 liða úrslitunum því hann skoraði sigurmarkið á móti Spáni í átta liða úrslitunum og bæði mörkin á móti Búlgaríu í undanúrslitunum. Baggio færði Brasilíumönnum aftur á móti heimsmeistaratitilinn með því að klikka á síðustu spyrnunni í vítakeppninni.
Nígeríska landsliðið varð Ólympíumeistari í Atalanta 1996 og stóð sig einnig vel á HM í Frakklandi 1998 þar til að lið steinlá 4-1 á móti Danmörku í sextán liða úrslitunum. Nígeríu vann meðal annars 3-2 sigur á Spáni sem kostaði Spánverja sæti í sextán liða úrslitunum.
Nígería á enn eftir að gera betur en á HM 1994 en komst í þriðja sinn í sextán liða úrslitin á HM í Brasilíu fyrir fjórum árum. Þar tapaði liðið 2-0 fyrir Frakklandi í 16 liða úrslitunum.