Golf

Birgir Leifur á einu undir pari

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Nordic Photos / Getty Images

Birgir Leifur Hafþórsson er í 30.-58. sæti eftir fyrsta hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann lék á einu höggi undir pari vallarins í dag.

Mótið fer fram á San Roque-vellinum á Spáni en Birgir Leifur hóf leik á 10. braut. Hann byrjaði á því að fá tvo skolla á fyrstu þremur holunum en lagaði stöðuna með því að fá fugla á 15. og 16. braut. Á þeirri næstu fékk hann hins vegar aftur skolla og var á einum yfir pari þegar hann var hálfnaður.

Hann gerði hins vegar engin mistök á „seinni" níu holunum og nældi sér í fugla á 4. og 9. braut og lauk þar með keppni á 71 höggi, einu undir pari vallarins.

Keppnin er gríðarlega jöfn og eru þeir sem luku keppni á tveimur undir pari í 10.-29. sæti. Englendingurinn Robert Coles hefur forystu eftir daginn en hann lék á sex höggum undir pari.

Alls hófu 156 kylfingar leik í dag en þeir 30 efstu eftir sex hringi fá þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×