Flugfreyjufélag Íslands hvetur félagsmenn til þess að standa saman sem aldrei fyrr í kjaraviðræðum félagsins við Icelandair. Það tilboð sem Icelandair hafi lagt á borðið sé óásættanlegt og þær þvinganir sem félagið beiti í viðræðunum séu grafalvarlegar.
Þetta kemur fram í bréfi Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur, formanns Flugfreyjufélags Íslands, til félagsmanna í dag. Hún segir stöðu Icelandair vissulega alvarlega, kórónuveirufaraldurinn og Boeing 737 MAX hafi leikið félagið grátt en krafan um lægri launakostnað flugfreyja hafi verið komin til löngu fyrir heimsfaraldurinn.
„Forstjóri Icelandair hefur sagt að helsta fyrirstaðan í endurreisn Icelandair sé starfsfólk þess. Stjórn FFÍ hafnar þeirri staðhæfingu. Samninganefnd FFÍ hefur sýnt fullan samningsvilja frá upphafi viðræðna og lagt fram fjölda tilboða með verulegum hagræðingarmöguleikum til vaxtar, sveigjanleika og samkeppnishæfni fyrir Icelandair,“ skrifar Guðlaug og víkur næst að tilboði Icelandair sem lagt var fram í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Hún segir það tilboð fela í sér verulega kjaraskerðingu til frambúðar sem myndi umbylta núverandi vinnuumhverfi. Samningurinn sem Icelandair hafi lagt til skerði jafnframt réttindi og hvíldartíma og tilboðið sé óásættanlegt, sérstaklega í ljósi þess að störf þeirra níu hundruð félagsmanna sem hefur verið sagt upp séu enn ótryggð.
„Mikill þrýstingur hefur verið lagður á samninganefnd FFÍ af hálfu Icelandair um að leggja drögin undir atkvæði félagsmanna milliliðalaust til formlegrar afgreiðslu eins og kjarasamningur. Í raun hefur hlutum verið stillt upp á þann veg að samninganefnd og félagsmenn FFÍ hafi óljósa framtíð fyrirtækisins í höndum sér. Að slíkar þvinganir séu viðhafðar á jafn alvarlegum tímum og raun bera vitni er grafalvarlegt.“
Flugfreyjufélag Íslands hefur boðað til kynningarfundar á morgun klukkan 12 sem verður streymt fyrir félagsmenn. Þar verður farið yfir tilboð Icelandair, sem hvorki stjórn, trúnaðarráð né samninganefnd félagsins vilja samþykkja.
„Stöndum vörð um störfin okkar, ekki láta blekkjast af umræðu og hræðsluáróðri sem við höfum ekki stjórn á.“