Fótbolti

Capello skilur ekkert í Beckenbauer

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, er ekki alls kostar sáttur við Þjóðverjann Franz Beckenbauer en hann sakar Þjóðverjann um að sýna enska liðinu ekki næga virðingu.

Beckenbauer sagði að enska landsliðinu hefði farið aftur undir stjórn Capello og að liðið gerði lítið annað en að negla boltanum fram völlinn og vona það besta.

Þessi ummæli fóru augljóslega verulega í taugarnar á Ítalanum og hann biður Beckenbauer um að halda sínum skoðunum fyrir sjálfan sig.

"Þessi ummæli komu mér verulega á óvart. Þegar maður talar um annað lið þá á maður að tala af virðingu. Það er auðvelt að tjá sig ofan úr stúku en ég held að Beckenbauer hafi ekki séð leikinn nógu vel," sagði Capello.

"Við vorum ekki að beita löngum sendingum. Við spiluðum boltanum á milli okkar og fengum svo sannarlega tækifæri til þess að skora. Ég skil þess vegna ekkert í því sem Beckenbauer var að segja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×