Viðskipti innlent

Bankar og sjóðir stýra fluginu

Tvær á vellinum Ætla má að tveir stærstu bankarnir og lífeyrissjóðirnir eigi nær allt hlutafé Icelandair Group. Fréttablaðið/Anton
Tvær á vellinum Ætla má að tveir stærstu bankarnir og lífeyrissjóðirnir eigi nær allt hlutafé Icelandair Group. Fréttablaðið/Anton

Lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og Landsbankinn munu eignast nær allt hlutafé í Icelandair Group eftir hlutafjáraukningu þess og breytingu skulda í hlutafé á næstu vikum.

Framtakssjóður lífeyrissjóðanna, sem stofnaður var undir lok síðasta árs, skuldbatt sig til að kaupa þrjátíu prósenta hlut í Icelandair á mánudag fyrir þrjá milljarða króna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvað daginn eftir að bæta einum milljarði króna við í skiptum fyrir tólf prósenta hlut.

Nýtt hlutafé er gefið út í báðum tilvikum og þynnist eignarhlutur annarra hluthafa um sjötíu prósent í kjölfarið. Sjóðirnir munu eiga samtals rúm fjörutíu prósent eftir viðskiptin en bankarnir tveir um 45 prósent. Bankarnir eiga stærri sneið í gegnum félög og fjármálafyrirtæki sem þeir hafa tekið yfir, svo sem Icebank.

Stjórnendur Icelandair Group hafa aflað félaginu fjögurra milljarða króna á tveimur dögum, líkt og fram kemur í tilkynningu. Til stendur að bæta stöðu félagsins frekar á næstu vikum með breytingu á hluta skulda í hlutafé og sölu eigna sem standa utan kjarnastarfsemi. Reiknað er með að skuldir Icelandair Group, sem námu rúmum fjörutíu milljörðum króna í síðasta árshlutauppgjöri, lækki um fjórðung. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×