Sport

Sportpakkinn: Fjórar Bjarkarstúlkur keppa á móti sem kennt er við Simone Biles

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stelpurnar úr Björk fara utan til Bandaríkjanna á morgun.
Stelpurnar úr Björk fara utan til Bandaríkjanna á morgun. vísir/egill aðalsteinsson

Fjórar stúlkur úr fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði eru á leið til Texas í Bandaríkjunum þar sem þær keppa á móti sem kennt er við bestu fimleikakonu heims, Simone Biles.

Þær Embla Guðmundsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir, Ísabella Hilmarsdóttir og Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir voru á lokaæfingu í fyrradag. Þar æfðu þær undir styrkri stjórn Hildar Ketilsdóttur þjálfara.

En hvernig kom það til að þær eru á leið á mótið í Texas?

„Ég sá auglýsingu um þetta á internetinu. Þetta byrjaði í gríni. Ég nefndi þetta við stelpurnar, hvort það væri ekki gaman að fara á mót hjá Simone Biles og þær urðu spenntar. Þannig að ég ákvað að kanna þetta frekar. Svo erum við bara á leiðinni,“ sagði Hildur í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakkanum.

Hildur segir að stelpurnar hafi lagt enn harðar að sér við æfingar eftir að ljóst var að þær væru að fara á mótið í Texas.

„Þetta er rosalega mikil hvatning og kveikir neista hjá þeim. Þær eru búnar að vera ótrúlega duglegar að æfa sig fyrir þetta mót,“ sagði Hildur.

Stelpurnar segjast vera spenntar fyrir mótinu og ætla að standa sig í stykkinu. Þær segjast ekki vera búnar að ákveða hvað þær ætli að segja við Biles ef þær hitta hana.

„Ég veit það ekki. Það á eftir að koma í ljós,“ sagði Embla.

Stelpurnar líta mikið upp til Biles sem sló í gegn á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

„Hún er sú allra besta. Hún er langbest,“ sagði Guðrún Edda.

Stelpurnar, sem eru allar búnar að æfa fimleika í mörg ár, halda utan til Texas á morgun.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Spenntar fyrir að keppa á móti sem kennt sem er Simone Biles

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×