Innlent

Ákærður fyrir að eyðileggja húsið sitt

Málið verður tekið fyrir þann 6. júní næstkomandi. Mynd/Samsett-Vísir.is
Málið verður tekið fyrir þann 6. júní næstkomandi. Mynd/Samsett-Vísir.is
Þingfesting í máli Björns Braga Mikkaelssonar, sem skemmdi húsið sitt á Álftanesi fyrir tæpum tveimur árum síðan, fer fram í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku.

Björn Bragi skemmdi einbýlishúsið sitt með beltagröfu á þjóðhátíðardaginn fyrir tveimur árum síðan. Í viðtali við Fréttablaðið nokkrum dögum síðar sagði hann að ástæðan hafi verið sú að annars hefði hann þurft að afsala sér því í hendur sýslumannsins. Talið er að tjónið hlaupi á yfir fjörutíu milljónum króna.

Það er Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem höfðar málið gegn Birni Braga en auk þess að vera ákærður fyrir að skemma einbýlishúsið niður er hann ákærður fyrir ýmis konar fjársvik.

Í einu tilviki fékk hann hjón til að greiða félagi í hans eigu rúmlega sjö milljónir króna sem greiðslu inn á einingahús sem félagið hafði í endursölu. Í ákæru segir að hann hafi vakið með hjónunum þá hugmynd að greiðslan yrði nýtt til að greiða framleiðanda hússins. En greiðslan fór aldrei til framleiðandans.

Málið verður tekið fyrir þann 6. júní í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×