Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt endurskoðaðar tillögur á uppbyggingu á Sjómannaskólareitnum. Vegna athugasemda íbúa og annarra hagsmunaaðila var ákveðið að gera breytingar á tillögunum. Í heild fækkar íbúðum um tæplega fimmtung og stærð opinna svæða sem skilgreind eru í aðalskipulagi tvöfaldast.
Á vef Reykjavíkurborgar segir að létta eigi á byggingamagni með því að taka út íbúðir fyrir námsmenn og minnka byggingarreit hagkvæms húsnæðis við stakkstæði. Þá á að stækka opin græn svæði frá auglýstri tillögu og festa þau til frambúðar sem opin svæði til leikja og útivistar í aðalskipulagi.
Aðrar breytingar eru eftirfarandi:
- Setja hverfisvernd á Stakkstæðið og Vatnshólinn, jafnframt því að tryggja ásýnd að byggingu Sjómannnaskólans.
- Hjóla- og sorpskýli framan og til hliðar við Sjómannaskóla færð eða tekin út.
- Ofanvatnslausnir og lagnakvaðir settar inn.
- Ný lóðamörk, bílastæði og göngustígar aðlöguð breytingum.
- Settar inn bundnar byggingarlínur og byggingarreitur minnkaður.
- Samhliða eru teikningar uppfærðar, texti, töflur, skuggavarp og þrívíddarmyndir.
Þessar tillögur eiga að tryggja fjölbreytt framboð íbúðarhúsnæðis í samræmi við megin markmið húsnæðisstefnu aðalskipulagsins að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.
Einnig eiga þær að stuðla þær að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar í samræmi við markmið aðalskipulagsins um uppbyggingu þéttrar og blandaðrar byggðar, sjálfbæra borgarþróun og bættan borgarbrag.
Fyrr á árinu var greint frá því að íbúar í Háteigshverfi töldu borgina fara offari í uppbyggingu á nýju húsnæði í hverfinu án þess að huga að nauðsynlegum innviðum þess. Gagnrýndu þeir að í fyrirhugaðri uppbyggingu á Sjóminjaskólareit verði mikilvægum grænum útivistasvæðum fórnað og gengið á friðaðar minjar.