Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að nokkuð eðlileg staða sé komin í vatnsrennsli í Hvítá og að það fari lækkandi.
Klakastífla í ánni sem Veðurstofan og lögreglan á Suðurlandi hafa fylgst með undanfarna daga virðist vera á undanhaldi.
„Það hefur verið að lækka í ánni, er komið í nokkuð eðlilega stöðu vatnsrennslið og fer lækkandi. Þannig að Hvítá ætti alveg að geta tekið vel við úrkomunni sem er í nótt og spurning hvort þetta hverfi alveg í nótt,“ segir Böðvar í samtali við Vísi.
Það hefur hlýnað undanfarið og á að hlýna meira í kvöld og nótt.
„Og verður talsverð úrkoma í nótt á öllu landinu eiginlega en fyrst hér á Suður- og Vesturlandi. Það á að rigna slatta og svo kólnar aftur á morgun, seinnipartinn á morgun og fer þá yfir í él,“ segir Böðvar.
Hann segir sérfræðinga Veðurstofunnar hafa minni áhyggjur af ánni.
„Við sáum að þetta var í rénun og vatnið virðist renna allavega þarna fram hjá núna. Bendir til þess að það sé komin einhver rauf í klakann,“ segir Böðvar.
Hvítá ætti að geta tekið vel á móti úrkomu næturinnar

Tengdar fréttir

Ísstíflur í Hvítá virðast hafa losnað að einhverju leyti
Vísbendingar eru um að ísstíflur í Hvítá á Suðurlandi hafi losnað að einhverju leyti.

Lögreglan fylgist grannt með klakastíflu í Hvítá
Lögreglan á Suðurlandi fylgist grannt með klakastíflu, sem myndaðist í Hvítá í vikunni.