Innlent

Kostnaður vegna utanlandsferða um 60 milljónir árið 2018

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kostnaður vegna utanlandsferða þingmanna á árinu 2018 er í nokkru samræmi við kostnaðinn undanfarin tíu ár.
Kostnaður vegna utanlandsferða þingmanna á árinu 2018 er í nokkru samræmi við kostnaðinn undanfarin tíu ár. vísir/vilhelm

Kostnaður vegna utanlandsferða þingmanna og embættis forseta Alþingis nam tæplega 60,5 milljónum króna á árinu 2018. Það er nokkru meira en árið þar á undan þegar heildarkostnaður vegna utanlandsferða nam rétt rúmum 43 milljónum. Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.

Þorsteinn óskaði eftir svörum við því hver kostnaður Alþingis hefur verið síðastliðin 10 ár, annars vegar vegna utanlandsferða þingmanna á vegum þingsins og hins vegar vegna ferða embættis forseta Alþingis. Svarið nær til áranna 2009 til 2018 og er sundurliðað fyrir kostnað vegna þingmanna annars vegar og embættis forseta þingsins hins vegar.

Þótt heildarkostnaður árið 2018 hafi verið nokkru meiri en á árinu 2017 er upphæðin þó í nokkru samræmi við þann kostnað sem þingið hefur borið vegna utanlandsferða á þessu tíu ára tímabili. Minnstur var kostnaðurinn á árinu 2009, árið eftir hrun, þegar hann nam um 32,5 milljónum króna. Mestur var kostnaðurinn á tímabilinu árið 2015 eða tæpar 74,4 milljónir.

Hér má sjá sundurliðað svar forseta Alþingis en í svarinu er tekið fram að upphæðirnar séu settar fram á verðlagi hvers árs. „Undir kostnað við ferðir þingmanna fellur jafnframt kostnaður við ferðir starfsfólks sem fylgja þingmönnum. Þá fellur jafnframt undir kostnað við ferðir á vegum embættis forseta allur kostnaður við ferðir þeirra þingmanna sem eru í fylgd með forseta ásamt starfsfólki sem er með í ferð,“ segir ennfremur í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×