Erlent

Telja mögulegt að lækna allar tegundir krabbameins með nýrri aðferð

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi nýja aðferð var notuð til að eyða krabbameinum í músum og frumum úr mönnum á tilraunastofu.
Þessi nýja aðferð var notuð til að eyða krabbameinum í músum og frumum úr mönnum á tilraunastofu. Vísir/GEtty

Vísindamenn telja sig hafa fundið áður óþekktan hluta ónæmiskerfis manna sem mögulega sé hægt að nota til að lækna margar, ef ekki allar, tegundir krabbameins. Aðferð þessi hefur ekki verið reynd á sjúklingum en niðurstöður rannsókna á rannsóknarstofum þykja einkar efnilegar, þó þær séu enn á frumstigi. Niðurstöður vísindamannanna frá Cardiff voru nýverið birtar í Nature Immunology.

Þessi nýja aðferð var notuð til að eyða krabbameinum í músum og frumum úr mönnum á tilraunastofu.

Í grófum dráttum sagt, þá uppgötvuðu þeir nýja tegund hvítra blóðfruma sem eru búnar þeim hæfileikum að geta fundið og eytt flestum tegundum krabbameinsfruma, án þess að ráðast á heilbrigðar frumur.

„Hér er möguleiki á því að lækna hvern einasta sjúkling. Hingað til hefur enginn talið mögulegt að þetta sé hægt,“ sagði prófessorinn Andrew Sewell við blaðamann BBC. Hann er einn þeirra sem kom að rannsókninni.

Þessi aðferð myndi virka á þann veg að blóð yrði tekið úr sjúklingum. Það yrði svo síað fyrir þessum tilteknu blóðfrumum. Þeim yrði svo breytt til að bera kennsl á krabbameinsfrumur, fjölgað og sprautað aftur í sjúklingana.

Svipuð aðferð er notuð í dag en hún er kostnaðarsöm, tímafrek og virkar á fáar tilteknar krabbameinsfrumur. Heilt yfir virkar þessi aðferð á einungis fimmtung sjúklinga. Þessi nýja aðferð ætti að virka á allar, þó mörgum spurningum sé enn ósvarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×