Fótbolti

Svisslendingar notuðu bandarísku leiðina á móti Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ottmar Hitzfeld, þjálfari Sviss, fagnar sigri á Spánverjum með Reto Ziegler.
Ottmar Hitzfeld, þjálfari Sviss, fagnar sigri á Spánverjum með Reto Ziegler. Mynd/AP
Ottmar Hitzfeld, þjálfari Sviss, segir að Bandaríkjamenn eiga sinn þátt í því að svissneska liðinu tókst að vinna 1-0 sigur á Evrópumeisturum Spánverja í fyrsta leik þjóðanna á HM í Suður-Afríku.

Bandaríkjamenn slógu Spánverja út úr Álfukeppninni fyrir ári síðan með því að vinna þá 2-0 í undanúrslitaleiknum en spænska liðið var þá búið að vinna fimmtán leiki í röð og alls leika 35 leiki í röð án þess að tapa.

„Við fylgdumst áhugasamir með hvernig Ameríkanarnir spiluðu á móti Spánverjum," sagði Ottmar Hitzfeld en Bob Bradley, þjálfara bandaríska liðsins, tókst að finna leiðina til að loka á sóknarleik spænska liðsins.

„Við vissum það að til að eiga möguleika á móti Spáni þá þurfa vissir hlutir að ganga upp. Bandaríkjamenn reyndu ekki að gera neitt í leiknum sínum og sættu sig við þá staðreynd að Spánverjar höfðu bæði hraða og breidd til þess að einoka boltann. Þeir pössuðu hinsvegar upp á að loka miðri vörninni sinni eins vel og þeir gátu. Þetta er ekki fullkomið leikkerfi en var áhugaverð taktík sem gekk upp," sagði Hitzfeld.

Líkt og gegn Bandaríkjunum þá voru Spánverjar miklu meira með boltann en fengu á sig mark úr skyndisókn sem tryggði Svisslendingum óvæntasta sigurinn á HM til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×