Bíó og sjónvarp

Balti skýtur föstum skotum á lögregluna vegna Ófærðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Leikstjórinn Baltasar Kormákur var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni rétt í þessu þar sem hann ræddi viðtökurnar við sjónvarpsþáttaseríunni Ófærð sem fyrirtæki hans RVK Studios framleiddi. Tveir síðustu þættir seríunnar voru sýndir í gær og sagði Baltasar það vera afar ánægjulegt að hafa náð að skapa slíkan sjónvarpsviðburð sem sameinar stóran part þjóðarinnar fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

Baltasar sagði að nú þegar væru uppi hugmyndir um framhald á Ófærð þar sem viðtökurnar á þeim svæðum sem þættirnir hafa verið sýndir nú þegar verið afar góðar.

Þá sagði Baltasar það vera afar merkilegt hversu mikla samsvörun þessir þættir hafa vegna nýlegra atburða sem hafa átt sér stað á Íslandi. Nefndi hann sem dæmi mansalsmálið í Vík í Mýrdal en í Ófærð var einmitt eitt slíkt mál til rannsóknar lögreglunnar.

„Þetta er miklu nær því sem er að gerast í kringum okkur. Það er kynbundið ofbeldi þarna, þöggun og vopnaburður lögreglunnar. Þetta kemur inn á svo marga hluti,“ sagði Baltasar.

Fyrir skömmu var viðtal við Guðmund Ásgeirsson, lögreglufulltrúa hjá Lögregluskólanum, í Reykjavík síðdegis þar sem hann gaf sitt álit á verklag lögreglunnar í Ófærð. Guðmundur tók fram að þættirnir væru fyrst og fremst góð afþreying en engu að síður væri margt í fari lögreglunnar í Ófærð sem kæmi honum spánskt fyrir  sjónir.

Þá var DV með viðtöl við nokkra nafntogaða lögreglumenn í síðustu viku sem sögðu ýmislegt óhefðbundið við vinnubrögð lögreglunnar í Ófærð.

Baltasar sagði við Reykjavík síðdegis í dag að honum hefði þótt þessi ummæli lögreglumannanna spaugileg.

„Þess vegna er ákaflega spaugilegt að hlusta á lögregluna tala um að sumt komi þeim spánskt fyrir sjónir í þessum þáttum en ég held að það komi þjóðinni allri spánskt fyrir sjónir hvernig þeir eru búnir að vinna upp á síðkastið. Ég held að það gleymist líka. Það er ekki allt eins og það á að vera þar.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×