Innlent

Árásarmaður leystur úr haldi

Þórshöfn Sögusagnir um áratuga gömul alvarleg afbrot sjötugs þolandans virðast hafa verið kveikjan að árásinni.
Þórshöfn Sögusagnir um áratuga gömul alvarleg afbrot sjötugs þolandans virðast hafa verið kveikjan að árásinni.
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir manni sem hefur játað alvarlega líkamsárás á eldri mann á Þórshöfn fyrr í mánuðinum.

Farið var fram á varðhaldið þar sem rannsóknarhagsmunir krefðust þess og á það féllst héraðsdómur. Hæstiréttur er hins vegar ósammála, enda sé rannsókn málsins langt komin og ekkert fram komið um að maðurinn muni reyna að torvelda hana. Hann var fyrst handtekinn 11. febrúar og sleppt úr haldi en síðan úrskurðaður í varðhald 17. febrúar til 1. mars, eftir að lögregla gerði sér fulla grein fyrir alvarleika málsins.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að árásin hafi verið mjög hrottafengin og sé rannsökuð sem tilraun til manndráps.

Talið er að maðurinn hafi ráðist margsinnis á þolandann með hnefahöggum og hafi meðal annars notað munnhörpu sem eins konar hnúajárn. Þá telur lögregla að hann hafi sparkað ítrekað í hann, meðal annars í höfuð hans. Þolandinn hlaut heilablæðingu og mar á heila auk fleiri áverka. Fram hefur komið við rannsóknina að árásin geti tengst sögusögnum um alvarleg brot þolandans, sem nú er sjötugur, fyrir mörgum áratugum. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×