Íbúar í Vík í Mýrdal komu saman á Guðlaugsbletti klukkan 17 í dag til þess að sýna ljósmæðrum stuðning í kjarabaráttu þeirra. Það var Ólöf Lilja Steinþórsdóttir, 25 ára gömul móðir í bænum, sem stóð fyrir viðburðinum og boðaði til hans með stuttum fyrirvara.
„Kjarabarátta ljósmæðra er mér hjartans mál og sem foreldri langaði mig til að sýna þeim stuðning,“ segir Ólöf Lilja. Hún gerði skilti sem á stóð „Við styðjum ljósmæður“ og segir að sig langi til að hengja það upp einhvers staðar í bænum en hún þurfi að ræða við bæjaryfirvöld varðandi það.
Ólöf Lilja hvetur fólk út um allt land til að gera slíkt hið sama og íbúar í Vík gerðu í dag; að sýna ljósmæðrum stuðning með svipuðu viðburði og hún stóð fyrir í dag.
„Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Ólöf Lilja.
Enn er ósamið við ljósmæður en síðasti fundur í deilunni var hjá ríkissáttasemjara í gær. Næsti fundur hefur verið boðaður á miðvikudaginn í næstu viku.
Íbúar í Vík sýndu ljósmæðrum stuðning í kjarabaráttunni

Tengdar fréttir

Fundi lokið í kjaradeilu ljósmæðra
Enn er ósamið í deilunni en aðeins þokaðist í viðræðum í dag.

„Skammist ykkar fyrir að koma okkur í þessar aðstæður“
„Ég hef orðið hræddur í lífinu en aldrei í líkingu við þetta“ sagði Ævar Þór Benediktson í ræðu sinni til stuðnings ljósmæðrum.

Örvæntingarfullir foreldrar komast ekki að hjá Björkinni
Starfmenn Bjarkarinnar fæðingarþjónustu hafa fundið fyrir auknum áhuga verðandi foreldra á þjónustunni síðustu daga eftir að uppsagnir ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi.