Erlent

Berlusconi yngir verulega upp

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Marta Fascina, Silvio Berlusconi og Francesca Pascale.
Marta Fascina, Silvio Berlusconi og Francesca Pascale. Samsett/getty/Facebook

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu er hættur með kærustu sinni til tólf ára, Francescu Pascale. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Berlusconi sé þegar kominn með nýja kærustu, þingkonuna Mörtu Fascina.

Forza Italia, flokkur Berlusconi, tilkynnti um sambandsslit hans og Pascale í yfirlýsingu. Rétt tæplega fimmtíu ára aldursmunur er á fyrrverandi parinu en Berlusconi er 83 ára og Pascale 34 ára. Sambandsslitin virðast hafa reynst þeirri síðarnefndu þungbær en hún segir í samtali við ítalska dagblaðið Repubblica að hún sé agndofa yfir tilkynningu flokksins.

„Mér mun þykja vænt um hann að eilífu. Ég óska honum allra hamingjunnar í heiminum og vona að hann finni einhvern sem hugsi um hann líkt og ég hef gert,“ segir Pascale.

Fjölmiðlar á Ítalíu greina frá því að Berlusconi sé þegar tekinn saman við aðra konu. Sú heitir Marta Fascina og er þingkona Forza Italia. Hún er þrítug og þar með 53 árum yngri en Berlusconi. Orðrómur um samband þeirra fór á flug eftir að til þeirra sást á göngu með hund Pascale, Dudu.

„Mér finnst fyndið að sjá þingkonu úti að ganga með hundinn minn. En mér finnst það í lagi,“ sagði Pascale um málið.

Berlusconi er tvífráskilinn og á fimm börn. Seinni eiginkona hans, Veronica Lario, kveðst hafa farið frá honum vegna ítrekaðs samneytis hans við ungar stúlkur. Berlusconi var árið 2013 dæmdur fyrir vændiskaup af stúlkum undir lögaldri en dómnum var síðar snúið við.

Þá hefur hann hlotið dóm fyrir skattsvik. Hann situr nú á Evrópuþinginu fyrir Ítalíu. 


Tengdar fréttir

Berlusconi gegn ítalska ríkinu í Strassborg

Fyrrverandi forsætisráðherrann segir bann, sem meinar honum að gegna opinberu starfi, vera ólögmætt. Hann ætlar að sækja ítalska ríkið til saka fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×