Innlent

Vara við afnámi auglýsingaskyldu starfa innan Stjórnarráðsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. MYND/Pjetur

Varhugavert er að fella niður auglýsingaskyldu starfa innan Stjórnarráðs Íslands að mati Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Þetta kemur fram umsögn bandalaganna á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Telja þau hætt við að þetta dragi úr gagnsæi við ráðningu opinberra starfsmanna og komi jafnvel í veg fyrir að hæfasti maður sé ráðinn hverju sinni.

Bæði bandalögin skiluðu inn umsögn til allsherjarnefndar Alþingis vegna frumvarps um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þau gera ekki athugasemdir við breytingar á ráðuneytum eða að Hagstofu Íslands verði breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun. Hins vegar leggjast þau bæði alfarið gegn því að auglýsingaskylda vegna starfa innan Stjórnarráðsins verði afnumin.

Stórt skref aftur á bak

Í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar kemur meðal annars fram að bandalagið telji mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins. Bandalagið áréttar að markmiðið með starfsauglýsingunum sé ekki eingöngu að tryggja jöfn tækifæri til starfa og starfsframa heldur einnig að tryggja að hæfasti einstaklingurinn sem völ er á hverju sinni verið ráðinn til starfans. Telur Bandalagið að með breytingunum sé verið að stíga stórt skref aftur á bak.

Gagnsæi mikilvægt

Í sama streng tekur Bandalag háskólamann og telur ennfremur að með breytingunum sé verið að stíga fyrsta skref til að afnema með öllu auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera. Í umsögninni segir ennfremur að miklar skyldur séu lagðar á stjórnendur í meðhöndlun almannafjár og við ráðningu starfsmanna. Því þurfi gagnsæi að vera tryggt og svo enginn vafi leiki á að vel sé með farið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×