Viðskipti innlent

Sex nýir eigendur í SPH

Að minnsta kosti fimmtán stofnfjárhlutir hafa skipt um hendur í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Sex nýir stofnfjáreigendur voru kynntir til sögunnar á stofnfjáreigendafundi SPH í gærkvöld. Meðal nýrra stofnfjáreigenda eru Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, sem á tvo hluti, Björn Magnússon framkvæmdastjóri, Björn Þorri Viktorsson fasteignasali, fjárfestarnir Sigurður Bollason og Magnús Ármann og Jón Erling Ragnarsson. Talið er líklegt að fleiri stofnfjáreigendur selt bréf sín. Aðspurðir vildu nýir stofnfjáreigendur ekki gera grein fyrir því hvað mikið hefði verið greitt fyrir stofnfjárhlutina en ekki er ólíklegt að seljendur hafi fengið fimmtíu milljónir fyrir sinn snúð. Fundurinn var haldinn að ósk fimm stofnfjáreigenda sem vildu fá svör um hvort einhver áform hefðu verið uppi um breytingar á stofnfjáreign í sparisjóðnum. Einnig var óskað eftir því að stjórn sparisjóðsins grein fyrir ýmsum þáttum í starfseminni til að mynda starfslokasamningi við fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Þar kom fram að fyrrverandi sparisjóðsstjóri þiggur laun til ársins 2008 samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi. Páll Pálsson, stjórnarformaður SPH, gerði grein fyrir áformum sparisjóðsins um framsókn á fyrirtækjasviði og voru almennar umræður um framtíð fyrirtækisins. Engin kosning fór fram á fundinum og engar ályktanir voru lagðar fram. Alls mætti 31 stofnfjáreigandi og sátu tveir fulltrúar Fjármálaeftirlitsins fundinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×