Andrew Svoboda og Will MacKenzie deila efsta sætinu fyrir lokahringinn á McGladrey Classic mótinu sem fer fram í kvöld en eftir þrjá hringi á Seaside vellinum í Georgíufylki eru þeir á 12 höggum undir pari.
Þriðji hringurinn verður eflaust lengi í minni MacKenzie því hann fór holu í höggi á hinni 160 metra löngu 6. holu sem lagði grunninn að frábærum hring upp á 65 högg eða fimm undir pari.
Russell Henley, sem leiddi fyrir þriðja hring, er einn í þriðja sæti á 11 höggum undir pari en nokkrir kylfingar deila fjórða sætinu á níu höggum undir. Meðal þeirra er sigurvegari síðasta árs, Chris Kirk og reynsluboltinn Stewart Cink sem lék frábærlega í gær, á 63 höggum eða á sjö undir pari.
Það stefnir því allt í spennandi lokahring sem verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 18:00 í kvöld.
Svoboda og MacKenzie leiða á Seaside fyrir lokahringinn
