Innlent

Svona verður fyrir­komu­lagið í sund­laugunum 18. maí

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Laugardalslaug. Landsmenn bíða eflaust margir í ofvæni eftir því að dýfa sér á ný í laugarnar.
Frá Laugardalslaug. Landsmenn bíða eflaust margir í ofvæni eftir því að dýfa sér á ný í laugarnar. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir mun leggja það til að fjöldi gesta í sundlaugum, sem ráðgert er að opni á ný eftir samkomubann nú á mánudaginn, fari fyrst um sinn ekki yfir helmingsfjölda gesta sem starfsleyfi hverrar laugar kveður á um. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.

Sundlaugar landsins hafa verið lokaðar síðan 24. mars en tilkynnt var í byrjun þessa mánaðar að þær yrðu opnaðar á ný 18. maí. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum í dag að hann myndi reyna að senda heilbrigðisráðherra tillögur um fyrirkomulag við opnun sundstaða í dag.

Hann myndi þar leggja til að fjöldi sundlaugargesta fari ekki yfir helmingsfjölda þeirra gesta sem leyfi er fyrir, eða staðurinn getur tekið á móti. Einnig verði tveggja metra fjarlægðarmörk virt eins og kostur er.

„Hugmyndin er síðan hjá mér að það væri hægt að auka fjölda gesta fram til 15. júní, kannski í einu viðbótarskrefi en þá muni vonandi vera hægt að leyfa hámarksfjölda. Allt er þetta náttúrulega háð því að það gangi vel með faraldurinn áfram,“ sagði Þórólfur.

Þá sagði hann leiðbeiningar starfshóps um sundstaði nú á lokametrunum. Þær verði vonandi hægt að birta á morgun.

Líkamsræktarstöðvar má svo opna á ný 25. maí. Þórólfur hyggst leggja til hið sama um þær, þ.e. að hámarksfjöldi gesta miðist við helmingsfjölda sem leyfi hverrar stöðvar kveður á um. Þá gefi stöðvarnar áfram kost á tveggja metra reglunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×