Fótbolti

Alfreð talar þýskuna eins og heimamaður í viðtali um endurkomuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar marki með félögum sínum í leiknum á móti Werder Bremen um síðustu helgi.
Alfreð Finnbogason fagnar marki með félögum sínum í leiknum á móti Werder Bremen um síðustu helgi. Getty/ Matthias Balk

Íslenski landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason hefur ekki aðeins staðið sig vel að skora mörk fyrir félagslið sín í Evrópu því hann hefur einnig sett mikinn metnað í að læra tungumálið á hverjum stað.

Alfreð hefur spilað í Belgíu, í Svíþjóð, í Hollandi, á Spáni og nú síðast í Þýskalandi undanfarin tímabil.

Alfreð var lengi frá á þessu tímabili eftir að hafa meiðst á öxl í landsleik í Tyrklandi. Hann missti af sjö deildarleikjum frá nóvember fram í janúar.

Alfreð fékk sínar fyrstu alvöru mínútur í sigri Augsburg á Werder Bremen um síðustu helgi þegar hann kom inn á völlinn í hálfleik.  Werder Bremen var þá 1-0 yfir en Augsburg snéri leiknum við í þeim seinni og Alfreð lagði upp sigurmarkið fyrir Ruben Vargas.

„Íslendingurinn er kominn til baka,“ er fyrirsögnin á viðtali við Alfreð á Twitter síðu Augsburg en þar talar Alfreð um endurkomu sína en hann talar orðið þýskuna eins og heimamaður. Það má sjá viðtalið við hann hér fyrir neðan.



Nú er bara að vona að Alfreð komist á flug á ný og fari líka að skora mörk sjálfur. Hann hefur skorað tvö mörk fyrir Augsburg á tímabilinu en það síðasta kom á móti Schalke í byrjun nóvember.

Fram undan eru síðan mikilvægir leikir í umspili um laust sæti á Evrópumótinu í sumar. Það væri sterkt ef Alfreð væri þá kominn í gott leikform og búinn að finna skotskóna sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×