Stjórnendur Samherja Íslands og Útgerðarfélag Akureyringa hafa ákveðið að endurgreiða ríkinu hlutabætur sem það greiddi starfsmönnum. Félög Samherja muni í staðinn sjálf bera allan kostnað af skertu starfshlutfalli starfsmanna sinna.
Í tilkynningu frá Samherja sem á bæði félögin kemur fram að þegar hafi verið gripið til ráðstafana til þess að endurgreiða ríkissjóða hlutabæturnar sem starfsmönnum í skertu starfshlutfalli vegna kórónuveirufaraldursins voru greiddar.
Starfsmenn í vinnslu á Akureyri og Dalvík voru um tíma í 50% starfshlutfalli eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst og gripið var til sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu hans. Stjórnendur Samherja töldu sjálfsagt að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda þegar fyrirtæki voru hvött til að nýta sér hana frekar en að segja fólki upp störfum.
Að sama skapi hafi stjórnendur talið eðlilegt að bera sjálf kostnaðinn af röskun á starfseminni þegar ljóst var að reksturinn gekk betur en útlit var fyrir í upphafi faraldursins.
Ýmis fyrirtæki hafa undanfarið greint frá því að þau ætli að endurgreiða ríkissjóði hlutabætur sem starfsmönnum þeirra voru greidd. Sum þeirra höfðu sætt gagnrýni fyrir að greiða eigendum sínum arð eða kaupa upp eigin hlutabréf á sama tíma og þau nutu aðstoðar ríkisins í faraldrinum.
Þannig hafa fyrirtæki eins og Festi og Össur sagst ætla að endurgreiða hlutabæturnar.