Viðskipti innlent

Tekur við stöðu lög­fræðings hjá Póstinum

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn Már Reynisson.
Kristinn Már Reynisson. Íslandspóstur

Kristinn Már Reynisson hefur verið ráðinn til Póstsins og þar sem hann mun gegna stöðu lögfræðings.

Í tilkynningu frá Póstinum segir að Kristinn hafi þegar hafið störf, en hann starfaði áður hjá Samkeppniseftirlitinu. Þar áður starfaði hann hjá Fjeldsted & Blöndal Lögmannsstofu.

„Um árabil starfaði Kristinn við laga- og viðskiptafræðideild Háskólans í Árósum þar sem hann sinnti rannsóknum á stjórnarháttum og ábyrgðum félagasamstæðna og viðskiptum tengdra aðila. Starfaði hann þar sem Lektor auk þess að hann hlaut doktorsgráðu vegna rannsókna sinna. Meðfram því starfi var hann gestafræðimaður hjá Columbia Law School og UC Berkeley Law School. Hann hefur sinnt kennslu í hlutafélagarétti, alþjóðlegum skattarétti og evrópskum umhverfisrétti við Lagadeild Háskóla Íslands ásamt því að vera leiðbeinandi M.A. ritgerða á sviði skattaréttar og fjármunaréttar,“ segir í tilkynningunni.

Kristinn er menntaður Mag.Jur. frá lagadeild Háskóla Íslands og er með LL.M. meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Póstsins, að félagið telji mikilvægt að hafa lögfræðiþekkingu innan þess. Muni Kristinn sjá um samskipti við opinbera aðila, auk þess að veita starfsmönnum ráðgjöf í ýmsum málum og tryggja eftirfylgni þegar það á við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×