Skoðun

Menning er máttarstoð

Sigurður Svavarsson og Hallgrímur Helgason skrifar
Nú þegar kosningar nálgast megum við til að minna fólk á menninguna, en sá málaflokkur vill oft gleymast í hinu pólitíska harki og enn finnast þeir flokkar sem ekki sjá menninguna sem eina af máttarstoðum samfélagsins.

Menningarlíf er öllum samfélögum nauðsyn og lífleg sköpun er forsenda framfara á öllum sviðum. Þess vegna sætir furðu að okkur Íslendingum hafi aldrei tekist að skapa raunverulega langtímastefnu í menningarmálum. Þó að menntun og menning eigi sér sérstakt ráðuneyti er ótrúlega oft tjaldað til einnar nætur þegar listin er annars vegar. Menn rjúka til og efna til átaksverkefna af ýmsu tagi sem lognast síðan útaf, í stað þess að móta markvissa stefnu til frambúðar sem miðast að því að skapa traustan grundvöll og öryggi fyrir þá sem starfa í greinunum, þannig að listirnar blómgist sem best. Í þeim efnum getum við margt lært af þjóðum sem standa okkur nærri, en nú eru grannar okkar helst þekktir fyrir sjónvarpsþætti sína og kvikmyndir, bókmenntir, samtímatónlist og hönnun.

Menningarlíf hér á landi er þó merkilega fjölskrúðugt, þrátt fyrir að margt í ytri skilyrðum sé hamlandi. Það vekur aðdáun víða hversu margir framúrskarandi listamenn komast til þroska í þessu litla samfélagi og þó að verk þeirra spretti úr tungumáli sem fáir skilja hefur það ekki komið í veg fyrir að þau berist um veröld víða og sýni spennandi hlið á landi og þjóð. Staðan er hins vegar brothætt og ýmsar blikur eru á lofti. Af þeim sökum er afar mikilvægt að okkur auðnist að skapa menningunni farsælan farveg.

Á lokadegi síðasta þings kom fram ánægjulegt frumvarp um afnám á bókaskatti, sem naut stuðnings þingmanna úr öllum flokkum. Það frumvarp felur vissulega í sér fögur fyrirheit. Ein og sér myndi sú aðgerð kannski ekki skila miklu - en sem hornsteinn í útfærðri bókmenningarstefnu til langs tíma væri hún gulls ígildi. Slíka langtímastefnu þarf að marka fyrir allar greinar menningarlífsins.

Flestum er ljóst að menning og listir skipta sköpum í mannlífinu; gera hvunndaginn bærilegri, lýsa upp skammdegið, ögra og hvetja, halda móðurmálinu okkar síungu og byggja brýr milli manna og þjóða. Færri gera sér grein fyrir því að menningarlífið gefur líka vel af sér á hagrænan mælikvarða. Ágúst Einarsson prófessor hefur ásamt fleirum sýnt fram á með sannfærandi hætti að hver króna sem varið er til eflingar menningarlífsins skilar sér þrútin til baka í bættum þjóðarhag. Þess vegna er sinnuleysi í þessum efnum enn óskiljanlegra.

Í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 6. okt. síðastliðinn minnti formaðurinn, Logi Einarsson, einnig á mikilvægi listanna í efnahagslífi framtíðarinnar. „Við stöndum í anddyri tæknibyltingar sem mun hafa í för með sér gríðarlegar og ófyrirséðar breytingar á samfélaginu. (…) Auknar kröfur verða um skapandi hugsun og tæknifærni. Við þurfum að leggja meiri áherslu á skapandi greinar, listir, rannsóknir og nýsköpun til að geta mætt þessum nýja veruleika.“

Við tókum sæti á framboðslistum Samfylkingarinnar m.a. vegna þess að við treystum því stjórnmálaafli til að hafast að í þessum efnum og viljum geta fylgt því eftir. Vonandi tekst með samstilltu átaki að móta hér heildstæða menningarstefnu að kosningum loknum – okkur öllum til hagsbóta.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×