Viðskipti innlent

Háskólinn í Reykjavík og Solid Clouds handsala gervigreindarsamstarf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stefán Gunnarsson og Gísli Hjálmtýsson.
Stefán Gunnarsson og Gísli Hjálmtýsson. Solid Clouds
Forsvarsmenn leikjafyrirtækisins Solid Clouds og tölvunarfræðideildar HR skrifuðu nýverið undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði gervigreindar í tölvuleikjum. Samstarfið miðar að því að nýta gervigreindartækni til að gera leikinn enn áhugaverðari fyrir notendur, er fram kemur í tilkynningu Solid Clouds.

Fyrirtækið vinnur að gerð Starborne sem er „þrívíður herkænskuleikur í geimnum sem er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara á stóru stöðukorti gegnum tölvu og snjalltæki,“ eins og honum er lýst í tilkynningunni. Gervigreind verður notuð í leiknum til að greina betur hegðun notenda leiksins svo og til að gæða tölvustýrða spilara auknum mannlegum eiginleikum. Leikurinn verður gefinn út á næsta ári.

Úr leiknum Starborne.solid clouds
„Ég bind miklar vonir við þetta samstarf, en innan gervigreindarseturs HR er mikil þekking á gervigreind og leikjagerð, sem mun nýtast okkur við að gera Starborne leikinn enn betri. Hugmyndin að Solid Clouds varð til í HR og það er okkur mjög mikils virði að hafa aðgang að sérfræðingum háskólans á þessu sviði.“ segir Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri Solid Clouds í tilkynningunni.

„Við erum mjög spennt fyrir því að að geta stutt við sprotafyrirtæki eins og Solid Clouds, enda mikil þekking á tölvuleikjaþróun á gervigreindarsetri skólans. Á sama tíma og við eigum von á að geta veitt Solid Clouds margvíslega aðstoð og stuðning, væntum við verulegs ávinnings í rannsóknum við að sjá reynslu og upplifun spilara í leiknum,“ segir Gísli Hjálmtýsson forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×